Eru Vestfirðir með?

 Landidallt Hvenær koma kæri minn, kakan þín og jólin? spyr Sigurður Pétursson í athyglisverðri grein á bb.is í gær. Vel má vera að einhverjum finnist það svona og svona að hossa sínum nánustu opinberlega, en ég bara verð að koma þessum hugleiðingum bónda míns á framfæri - þær eru svo mikill sannleikur um stöðu mála á Vestfjörðum. Úrræðaleysið - eða á maður að segja kjarkleysið?

Eiginlega eru engin önnur orð yfir það sem hefur verið að gerast í málefnum Vestfjarða að undanförnu. Og hvað gera kjarklausir menn? Þeir  tala niður tillögur annarra, reyna að þegja þær í hel,  drepa umræðunni á dreif, til þess að breiða yfir eigin vanmátt. Gamla sagan.

 Því miður er ég hrædd um að myndin hérna fyrir ofan - sem sýnir landið án Vestfjarða - sé sannari en margan grunar. Ég minnist þess þegar ég fyrir fáum árum var ein af þeim sem skrifuðu greinar á kreml.is. Vefsíðan sem bar þetta grínaktuga nafn var umræðuvettvangur jafnaðarmanna og þar skrifuðu nokkrir eldhugar um ýmis málefni tengd stjórnmálum og þjóðfélagsumræðu. Ég setti einhverju sinni inn grein sem fjallaði um samgöngumál á Vestfjörðum - enda lá mér margt á hjarta í þeim efnum. Fyrir vikið uppskar ég ákúrur ónefnds kollega í hópnum. Honum fannst fyrir neðan allar hellur að ég skyldi skrifa um "innanhéraðsmál" á jafn virðulegan vef sem fjallaði um þjóðmál "á landsvísu". Spruttu af þessu svolitlar ritdeilur á póstlista kremlverja - því ég var ekki tilbúin að kyngja því að jarðgöng á Vestfjörðum, eða samgöngur þangað yfirleitt, væru innanhéraðsmál. Ekkert frekar en tvöföldun Suðurlandsvegar, staðsetning Reykjavíkurflugvallar, göng um Almannaskarð eða Sundabraut. 

Mér varð hinsvegar ljóst af þessum orðaskiptum að stór hluti Höfuðborgarbúa lítur ekki á Vestfirði sem hluta af heildinni. Í þeirra augum eru vandamál Vestfjarða ekki vandi landsins. Þannig er það nú bara.

Það þykir sjálfsagt að taka við þjóðartekjunum sem héðan koma - hirða afrakstur auðlindanna sem eru í hafinu umhverfis Vestfirði og láta renna í þjóðarbúið. En það virðist ekki vera jafn sjálfsagt að verja einhverju af sameiginlegum fjármunum ríkissjóðs til uppbyggingar atvinnulífs og búsetu á Vestfjörðum, þó þess gerist nú brýn þörf.  

Þess vegna er ég hrædd um að Vestfjarðanefndinni svokölluðu, sem forsætisráðherra setti á laggirnar eftir fjölmennan baráttufund sem haldinn var á Ísafirði, hafi ekki verið ætlað annað en að róa fjöldann. Láta fólk halda að nú væri verið að gera eitthvað - bara eitthvað.

En Vestfirðingar spyrja um efndirnar - og sú spurning brennur nú heitari en nokkru sinni fyrr á stjórnvöldum landsins: "Hvenær?"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Þeir sem stýra skútunni undanfarin ár eru ekki miklir landsbyggðamenn, sumir eftilvill í orði en svo ekki söguna meir. Til að þagga niður í þúfnapexurunum er gott ráð að henda niður nokkrum álverum. En helst ekki eyða í óþarfa eins og vegi og göng. Myndina af landinu án Vestfjarða mætti auðveldlega útfæra nánar. Landið gæti þá litið út eins og kúla, sem rúmaðið höfðuborgarsvæðið, miðju alheimsins.

Pálmi Gunnarsson, 24.4.2007 kl. 12:36

2 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

Þessi mynd á við rök að styðjast - í það minnsta jarðfræðileg - Yngsta landið er jú í miðju Íslands - mest eldvirknin og nýja kvikan ýtir Vestjörðum brátt í hafið - en mér finnst það bara ekki tímabært ennþá. Lifi Vestfirðir.

Þorleifur Ágústsson, 24.4.2007 kl. 12:47

3 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

Já og svo er það til eftirbreytni hve vel þið Siggi vinnið saman - standið saman og berið virðingu fyrir hvort öðru. Gott fólk sem gott er að kalla vini sína

Þorleifur Ágústsson, 24.4.2007 kl. 12:48

4 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Takk fyrir hlýja kveðju Tolli minn

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 24.4.2007 kl. 18:01

5 Smámynd: Skafti Elíasson

Nú er bara að sjá hvað menn gera.

Skafti Elíasson, 24.4.2007 kl. 22:07

6 Smámynd: Kristján Pétursson

Þakka Sigurði fyrir þessa frábæru grein.Ég les reglulega bloggið þitt Ólína,það er frábært eins og við var að búast.Vestfirðir hafa alla tíð heillað mig og fólkið líka.Hlakka alltaf til að fara þangað á sumrin,alltaf eitthvað nýtt að skoða.

Kær kveðja til ykkar.

Kristján Pétursson, 24.4.2007 kl. 22:44

7 Smámynd: Steingrímur Helgason

Fyrir mér er gaman að skoða bloggið þitt, ég á einhverjar fínar taugar til Werstufjarðarkjálkans sjálfur, (eins & á mínu auma bloggerí sést), en get fúslega viðurkennt að ég hef nú strítt vinafólki mínu búsettu þar dálítið með því að verk tröllskessanna hafi nú aldrei verið fullunnið & það sé þjóðhagleg hagkvæmi í að ljúka því.

Aldrei séð þessa hugmynd dona vel myndfærða áður.

Í kerskni sagt að það sé nú óþarfi að bora í gegnum fleiri fjöll þarna eða þvera einhvera firði báðar leiðir því að fólk geti bara flutt frá kjálkanum yfir sumartímann á heiðinni minni & átt bara yndileg sumarhús þarna áfram.

En þetta var mér gott innlit, gott á mig & takk fyrir það.

S.

Steingrímur Helgason, 25.4.2007 kl. 02:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband