Háskóli Vestfjarða er raunhæfur kostur

Nú þrengir að í atvinnulífi og búsetuskilyrðum á Vestfjörðum og þarf þessi landshluti sárlega á auknu atgerfi og nýsköpun að halda. Í kjölfar ákalls frá sveitarstjórnarmönnum og íbúum á Vestfjörðum hefur forsætisráðherra skipað nefnd sem á að gera tillögur að styrkingu atvinnulífs á Vestfjörðum. Nefndin hefur þrjár vikur til stefnu að skila „raunhæfum tillögum“, svo nú er um að gera að vinna hratt og vel.

 

Sem íbúi á Vestfjörðum – ein þeirra sem stóð að mörghundruð manna baráttufundi um framtíð byggðar á Vestfjörðum nú fyrir skömmu - vil ég ekki láta mitt eftir liggja að koma hugmyndum og rökstuðningi á framfæri við nefndina góðu. Ég skora á nefndarmenn að leggja til við forsætisráðherra að stofnaður verði háskóli á Ísafirði.

Hvernig háskóli? 

 

Háskólinn á Ísafirði þyrfti að vera alhliða háskóli með kennslu á hug- og raunvísindasviði (þ.e. almennt háskólanám að BA og BSc prófi til að byrja með) sem fengi með tímanum að þróast yfir á sérsvið og framhaldsrannsóknir. Í því sambandi má nefna:

 

Umhverfis- og vistfræðirannsóknir þ.m.t. dýralíf (fuglar, refur, selur, hvalur, fiskistofnar), gróður, sjávarbúskapur, hafstraumar, loftslag, veður, snjóalög.

Fiskeldis- og veiðarfærarannsóknir.

Menningar- og félagsrannsóknir í tengslum við sögu svæðisins og búskaparskilyrði fyrr og nú (hvalveiðisaga Baska, galdrabrennur, Spánverjavíg, Ögurveldið gamla, vestfirsku skáldin, Vestfirðingasögur, o.fl., o. fl.)

Einnig mætti hugsa sér sérstaka tækni- eða verkmenntadeild innan háskólans, þá í samstarfi við fyrirtæki hér á staðnum (t.d. 3X-stál) og/eða framhaldsskólann um verklega þætti kennslunnar.

Fjöldi nemenda og starfsfólks

Reikna mætti með um 40-50 nemendum fyrsta árið (20 nýnemum af svæðinu  og álíka mörgum annarsstaðar að af landinu). Þess vegna þyrfti fyrsta námsframboðið í Háskóla Vestfjarða að vera almennt grunnháskólanám.

 

Með tímanum myndi nemendum fjölga og upptökusvæðið stækka, ná jafnvel út fyrir landssteina vegna fjarkennslumöguleika. Að þremur til fimm árum liðnum mætti reikna með að nemendur losuðu hundraðið, en yrðu margfalt fleiri að tíu árum liðnum (300-500), ef vel tekst til.

 

Gera þyrfti ráð fyrir 10-15 stöðugildum við nýstofnaðan háskóla í fyrstu, en þeim þyrfti að fjölga á fyrstu 5-10 árunum í samræmi við fjölgun nemenda (25-40 störf).

Námsframboð og kennsluhættir 

 

Kennsla gæti verið blanda af staðbundnu námi og fjarkennslu. Sú sem þetta skrifar en nú að gera tilraun með háskólafjarkennslu frá Ísafirði í samstarfi Stofnunar fræðasetra HÍ við Háskólasetur Vestfjarða og símenntunarmiðstöðvar á landsbyggðinni. Kennt er í gegnum fjarkennslubúnað á Ísafirði til nemenda í Reykjavík, á Egilsstöðum, Höfn, Sauðárkróki, Skagaströnd, í Bolungarvík, á Þingeyri og Ísafirði. Kennslan gengur vel, nemendur virðast ánægðir, og því nokkuð ljóst að landsbyggðin getur allt eins verið veitandi í háskólakennslu eins og þiggjandi. Sama hátt mætti hafa á kennslu við Háskóla Vestfjarða (a.m.k. að hluta til).

Samstarf 

Háskólinn á Ísafirði gæti verið í samstarfi við aðra háskóla og fræðastofnanir, t.a.m. fyrirhugað fræðasetur Háskóla Íslands í Bolungarvík, Náttúrustofu Vestfjarða og Háskólasetur, svo fátt eitt sé nefnt. Með tímanum gæti þessi skóli verið í samstarfi við aðra háskóla í Evrópu – möguleikar tækninnar eru orðnir þannig að landamæri eru ekki lengur farartálmar.

Fordæmi 

 

Ýmis fordæmi eru fyrir stofnun háskóla og staðsetningu þeirra utan helstu þéttbýlissvæða í Evrópu, skóla sem hafa laðað að sér starfsemi og nemendur. Nægir að nefna háskólann í TromsØ í Noregi og  SkØvde í Svíþjóð, svo einungis sé litið til Norðurlanda – en fleiri dæmi mætti nefna víðar um Evrópu. Hér á landi höfum við uppörvandi fordæmi í skólum á borð við Bifröst, Háskólann að Hólum, Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og Háskólann á Akureyri, sem allir hafa sannað tilvist sína hver með sínum hætti.

Hvers vegna? 

 

Tannhjól atvinnulífs og samfélags á Vestfjörðum þurfa tafarlausa innspýtingu núna, til þess að vélin geti afkastað því sem þarf svo byggð fái þrifist hér. Menn mega ekki hugsa þetta mál út frá því hvort nú þegar séu nógu margir á svæðinu til þess að vinna við og stýra háskóla. Þegar skólinn hefur verið stofnaður verður að sjálfsögðu auglýst eftir hæfu starfsfólki, og eðlilegt að reikna með því að það komi þá til staðarins, sé það ekki búandi hér fyrir.

 

Þegar Menntaskólinn á Ísafirði var stofnaður árið 1970 kom hingað vel menntað og duglegt fólk til þess að stýra þeim skóla og starfa við hann. Sama myndi gerast að þessu sinni, og víst er að þörfin er brýnni nú en oftast áður. Menn geta rétt ímyndað sér upplit þessa svæðis ef aldrei hefði komið hér menntaskóli.

 

Við núverandi aðstæður er stofnun háskóla á Ísafirði raunhæft úrræði. Það  leysir ekki allan vanda eitt og sér, en yrði tvímælalaus lyftistöng og atgerfistilfærsla: Sú nærandi innspýting sem þetta landssvæði þarf svo sárlega á að halda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorleifur Ágústsson

Sæl kæra vinkona,

góðir púnktar - og til er ég í slaginn. það þarf nefninlega ekkert að hnoða deig í allar kökugerðir!

 kv,

tolli.

Þorleifur Ágústsson, 15.3.2007 kl. 10:57

2 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Innlitskvitt - flottar pælingar hjá þér

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 15.3.2007 kl. 12:52

3 identicon

Sæl Ólína.  Ég vil þakka þér fyrir þessa grein.  Sjálfur hef ég verið efins í stofnun Háskóla en mér finnst grein þín mjög uppörvandi.

Ég hef reyndar verið mjög ósammála Halldóri bæjarstjóra í áherslu á flutninga og tel að menntun og þekking sé það sem mestu máli skiptir.  Eitt af lykilatriðum hvað varðar mannauð og hæfa starfsmenn, hvort sem það eru kennarar í háskóla eða iðnmenntað fólk, eru góðar samgöngur.  Ekki bara flutningar og frakt, sem þó skipta auðvitað miklu máli.  Góðar samgöngur við höfuðborgarsvæðið er það sem skiptir máli.

Bestu kveðjur

Gunnar Þórðar 

Gunnar Þórðarson (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 16:29

4 identicon

Fyrst , innilegar samúðarkveðjur til aðstandenda og ykkar á Ísafirði sérstaklega vegna hins hörmulega sjóslyss sem varð undan Stigahlið.

Þessi hugmynd að háskólakjana á Ísafirði er að mínu mati fyllilega raunhæf hugmynd og mjög æskilegt að verði að veruleika.

Horfum til Bifrastar í Borgarfirði , það ganga hlutirnir heldur betur upp.

Ljóst er að framtíð þessarar þjóðar er öll komin undir aukinni menntun ,ef við viljum lifa í þessu landi með reisn. 

Sannarlega gott að lesa um  þennan kjark og framtíðarsýn frá Ísafirði. 

Sævar Helgason (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 17:26

5 Smámynd: Katrín

Sá í fréttum mbl.is áðan um viljayfirlýsiningu um stofnun og rekstur Háskólasamfélags á Keflavíkurflugvelli.  Er endalaust hægt að senda okkur Vestfirðingum puttann   Hvar skyldi Akyreyrarbær vera staddur nú  ef menn hefðu ekki náð í gegn stofnun Háskóla þar??  

Höldum ótrauð áfram að boða erindið

Kv.

Kata 

Katrín, 15.3.2007 kl. 17:31

6 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Ótrúlega spennandi! Líklega hefði ég ekki hugsað svona skemmtilega um þessar hugmyndir ef þú hefðir ekki skrifað þetta.

Edda Agnarsdóttir, 15.3.2007 kl. 21:11

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það gleður gamlan samstarfsmann og vin að sjá hvað þú ert hress og öflug þessa dagana enda mun ekki af veita fyrir Vestfirði eins og nú er komið málum. Vonandi kemst ég vestur sem fyrst til að leggja orð í belg um fleiri málasvið. Gangi ykkur sem best við að beita skipinu upp í vindinn!

Ómar Ragnarsson, 15.3.2007 kl. 21:55

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það er eitt, sem ég sé fyrir mér að upp komi í umræðunni um framtíð og uppbyggingu atvinnulífs fyrir vestan.  Það er slagsíða í áherslum á þetta háskólamál.  Víst eru menntamenn og hugsuðir háværastir í þessari umræðu og eðlilegt að þeir horfi til sinna möguleika og leggi kannski heldur mikinn þunga á málefnið á kostnað annarra úrræða. Ég vil minna á að einnig býr ómenntað fólk og almennt verkafólk á vestfjörðum sem vonast eftir betri kjörum einnig.  Ég vil því minna á fjölbreytni í mati þessara kosta og vara við hugsun um allsherjarlausnir í þessu samhengi.

Jón Steinar Ragnarsson, 17.3.2007 kl. 19:17

9 identicon

Lýst ljómandi vel á þessa hugmynd ! 

Það þarf nauðsynlega að setja á fót Háskóla á vestfjörðum.

Ungt fólk sem hefur þá lokið námi í MÍ gæti þá átt þann kost að halda áfram námi í sinni heimabyggð. Þetta myndi vera gott skref í því að varna fólks "flótta" frá vestfjörðum því að þá aukast líkurnar verulega á því að það nái að festa rætur og um leið bæti hið góða mannlíf sem er fyrir vestan.  

Guðný Ösp Ragnarsdóttir (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 16:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband