Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

fermingarstulkaÉg kenni í brjóst um vesalings stúlkuna sem í sakleysi sínu stillti sér upp fyrir myndavélina með bros á vör og beygði sig eftir bangsanum - að fá svo yfir sig aðrar eins lýsingar og þær sem Guðbjörg Kolbeins hefur sett fram. Túlkun Guðbjargar á þessari tilteknu mynd - öllu heldur framsetning hennar á túlkun sinni - er allt of skefjalaus að mínu mati.

Hitt er svo staðreynd að það er rík tilhneiging til þess að hlutgera konur í auglýsingum, og sú tilhneiging er farin að teygja sig ansi langt niður eftir aldursskalanum. Við megum heldur ekki gleyma því. Ég get að vissu leyti tekið undir með þeim sem telja að stúlkan sé of fullorðinslega klædd fyrir þetta bangsaumhverfi - þá horfi ég kannski fyrst og fremst á netsokkabuxurnar og háu hælana, sem trúlega vekja ákveðin hugrenningatengsl hjá fólki.

En það er ekki sama hvernig hlutir eru sagðir. Hér á í hlut 14 eða 15 ára stúlka sem lét taka af sér mynd. Þeirri myndatöku var áreiðanlega stjórnað af fullorðnu fólki sem hún treystir væntanlega. Við skulum ekki gleyma því að ungar stúlkur vilja vera fullorðinslegar þegar þær eru komnar á fermingaraldur, og fermingin er ákveðin innganga í heim fullorðinna. Það var a.m.k. sagt hér áður fyrr að við fermingu kæmist maður "í fullorðinna manna tölu". 

Það þarf ekki að vera neitt óeðliliegt þó myndin sýni einmitt fullorðinslega stúlku sem er samt barn: Skörun tveggja heima, barns og fullorðins. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: B Ewing

Ha. Netsokkabuxur?  Eru þær ekki rauðköflóttar og hvítar?

Hún Guðbjörg má eiga það að hún tók þessa sláandi lýsingu sína á jafn saklausum bækingi og þessum út af bloggsíðu sinni síðdegis í gær. 

 Á www.mannlif.is er hinsvegar frétt um að þessi bloggfærsla muni jafnvel draga nokkurn dilk á eftir sér.

Ég hef nú þegar viðrað mitt álit víða á bloggvefjum, læt það duga.

B Ewing, 9.3.2007 kl. 13:56

2 Smámynd: Kittý Sveins

Já ég hélt einmitt að hún væri í rauðum og hvítum sokkabuxum en ekki netasokkabuxum...

Kittý Sveins, 9.3.2007 kl. 14:56

3 Smámynd: Steindór J. Erlingsson

Gott að heyra rödd skynseminnar í þessu máli!

Steindór J. Erlingsson, 9.3.2007 kl. 16:48

4 identicon

Mér finnst hálf óþægilegt að vita til þess að yfirvöld við Háskóla Íslands hafi ekki gripið í taumana eftir að manneskja, sem gjarnan er kynnt sem starfsmaður skólans, skuli ekki láta í sér heyra eða krefjast þess að hún biðjist afsökunar á hrottalegum ummælum sínum vegna þessarar saklausu auglýsingar.

Stefán Einar Stefánsson (IP-tala skráð) 9.3.2007 kl. 18:07

5 identicon

Þessi kinkí kvenmaður getur ekki verið starfsmaður Háskólans, ég á erfitt með að trúa því. Aumingja hún að hafa ekki víðari sýn á lífið, lítil og hrædd dúkkulísa þarna á ferð. Sofi hún sem lengst og leiti ekki oftar fram á ritvöllinn. Ég má þó hafa þessa skoðun, ekki satt ?

Örn Johnson ´43 (IP-tala skráð) 9.3.2007 kl. 22:02

6 identicon

Loksins heyrist rödd skynseminnar í gegnum gný fordóma í báðar áttir, hafðu þökk Ólína.  Orðfar Guðbjargar var klámfengnara og ruddalegra en orðum tekur að telja og aðför hennar að saklausri stúlkunni er til skammar fyrir hana sem manneskju og sem leiðbeinanda og fyrirmyndar þeirra hverra hugur leitar út á fjölmiðlamarkaðinn svo ekki sé minnst á orðspor Háskóla Íslands.  Það vekur einna mesta furðu að henni skuli ekki hafa verið veitt áminning (hún er opinber starfsmaður er það ekki og má því ekki reka fyrir þetta?) fyrir að leggja nafn æðstu menntastofnunar landsins í svaðið.  "Aðgát skal höfð í nærveru sálar" ætti að vera eitt af grundvallaratriðum fjölmiðlafræðinnar og þar brýtur hún öll boð og bönn og gerist meiri "klámhundur" en flestir þeir sem stigið hafa fram á ritvöllinn.  Fyrir hönd jafnréttissinna, feminista og annarra sem láta sig gott siðferði og siðgæði, ásamt jöfnum rétti kynjanna varða vil ég leyfa mér að sletta smá ensku:  "With friends like you, who need enemies?"

Ágúst Vernharðsson (IP-tala skráð) 10.3.2007 kl. 01:29

7 identicon

Sum ykkar sem skrifið athugasemdir hér ættuð að líta í eigin barm.  "Guðbjörg er VIÐBJÓÐUR" og að tala um aðra manneskju sem fyrirbæri.  Hvers konar ummæli eru það, eða réttara spurt; hvers konar manneskja skrifar slíkan "viðbjóð"?!
Þó að grófar lýsingar séu e.t.v. ósmekklegar og óþarfar fannst mér þessi ljósmynd strax ósmekkleg þegar ég sá hana án þess að ég áttaði mig fyllilega á ástæðunni fyrir því.  Það var áður en ég sá nokkuð um athugasemdir Guðbjargar um málið.  Ég tek það fram að ég hef enga reynslu á þessu sviði, eins og ýjað er að í kommenti nr. 7 hér að ofan.   Eins skil ég ekki þá gagnrýni á Guðbjörgu að hún sé að ráðast á fyrirsætuna.  Hún hlýtur að vera að gagnrýna þá sem standa að myndatökunni og blaðinu. 

Margrét (IP-tala skráð) 10.3.2007 kl. 01:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband