Hver er ábyrgð Marels?

Marel ber margvíslega samfélagslega ábyrgð“ sagði talsmaður fyrirtækisins í sjónvarpsviðtali sama dag og tilkynnt var um að Marel hefði ákveðið að loka starfsstöð sinni á Ísafirði. Það vafðist ekki fyrir stjórnendum Marels að svipta þar með 25 starfsmenn atvinnunni; svipta fámennt byggðarlag mikilvægri máttarstoð í atvinnulífinu. Eftir sitja 25 fjölskyldur í uppnámi, uggandi um framtíðina – heilt byggðarlag felmtri slegið yfir ótíðindum enda viðbúið að atgerfisflótti og búseturöskun fylgi í kjölfariðHví skyldu stjórnendur stórgróðafyrirtækis velta slíkum hlutum fyrir sér? Þess væntir trúlega enginn. En að þeir skuli hafa kjark til þess að tala í sama orðinu um „samfélagslega ábyrgð“ það er meiri ósvífni en maður hefði búist við að óreyndu.

Hagræðingarkrafan?

Í máli Magnúsar Þórs Ásmundssonar, framkvæmdastjóra framleiðslusviðs Marels, kom fram fram að miklar breytingar hafi orðið á rekstrarumhverfi Marels undanfarin tvö ár. Á síðasta ári keypti fyrirtækið tvö stór fyrirtæki, AEW Delford Systems á Englandi og Scanvægt í Danmörku. Við þetta tvöfaldaðist Marel að stærð og rekur nú á fimmta tug starfsstöðva í 22 löndum, eins og fram hefur komið í fréttum.

Var helst á manninum að skilja að vegna þessarar velgengni fyrirtækisins væri nú öldungis óhjákvæmilegt annað en að stefna á frekari „samþættingu“ fyrirtækjanna í eigu Marels, „finna samlegðaráhrif og hagræða í rekstrinum“ eins og það var orðað. Já, þegar velgengnin er sem mest, þá er um að gera að hagræða og græða meira.

Ekki eru mörg ár síðan talsmenn þessa sama fyrirtækis komu hingað vestur í þeim erindum að innlima annað, rótgróið tæknifyrirtæki, Póls – einmitt til þess „að ná fram samlegðaráhrifum í innkaupum og sölukerfi“ eins og það var orðað á þeim tíma. Fram hefur komið að forsvarsmenn Marels fullvissuðu þá ráðamenn bæjarins um að Marel stundaði ekki uppkaup fyrirtækja til þess að leggja þau niður. Við sjáum nú hve mikið var að marka það tal. Nú vitum við að það var álíka öfugmæli og tafsið um „samfélagslega ábyrgð“ sem hraut af vörum framkvæmdastjóra framleiðslusviðs Marels í sjónvarpsviðtalinu nú síðast.

Ímyndin?

Á síðustu árum hefur athygli markaðsfræðinga beinst í vaxandi mæli að ímynd fyrirtækja. Góð ímynd er yfirleitt talin jafngildi hagnaðar eða gróða – enda verja mörg þeirra háum fjárhæðum til ímyndarsköpunar. Marel er fyrirtæki sem hefur haft á sér þokkalegt orð til þessa. Meðal annars þess vegna hef ég, líkt og margir, keypt í því hlutabréf. Minn hlutur er að sjálfsögðu hverfandi lítill á mælikvarða þeirra fjármuna sem höndlað er með í rekstri Marels. En sem hluthafa og velunnara fyrirtækisins til þessa, svíður mér að horfa upp á þessar aðgerðir. Þær eru skeytingarlausar gagnvart samfélagslegum og mannlegum gildum – gerðar í hagnaðarskyni á kostnað annarra verðmæta. Auk alls annars trúi ég því að þær séu skaðlegar fyrir ímynd fyrirtækisins – en yfir því græt ég þurrum tárum úr því sem komið er.

Siðferðileg ábyrgð?

Hafi stjórnendur Marels nokkurn tíma leitt hugann að „samfélagslegri ábyrgð“ hefðu þeir að sjálfsögðu aldrei lagt niður starfsstöð í byggðarlagi sem sárlega þarf á slíkum atvinnurekstri að halda. Þeir hefðu frekar látið þetta byggðarlag njóta góðs af samlegð og hagræðingu, t.d. með því að færa hingað aukin verkefni. Því miður virðist deginum ljósara að ekkert slíkt hefur hvarflað að þeim.

Samfélagsleg ábyrgð?

Stjórnendur Marels virðast ekki vita hvað samfélagsleg ábyrgð er. Og samfélagið – sem nært hefur starfsemi þeirra, komið undir þá fótunum, fært þeim þekkingu, mannauð og tækifæri í hendur – það hverfur í mistur gleymskunnar jafnóðum og það hefur skilað sínu hlutverki. Þegar útrásin er orðin að veruleika og viðskiptin farin að ganga greitt, þá eru það sko „stjórn fyrirtækisins“ og „hluthafarnir“ sem sýna þarf hagnaðinn, ekki samfélagið. Þetta eru nefnilega stórir kallar í alvöru bissness. Þeir keyptu upp tvö erlend stórfyrirtæki og urðu svo stórir að nú þurfa þeir að „hagræða“.

Svei. Ég vil ekki eiga hlut í þessu fyrirtæki og mun selja mín bréf í Marel við fyrsta tækifæri.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rauða Ljónið

Sæl, Ólína.

Þetta eru ömurlegar fréttir frá Ísafirði þegar 25. manns missa vinnuna og fjölskyldur þessara starfsmann eru sviptar lífsviðuværu sínu ég óska þess að þessir starfsmenn fái vinnu og einhver störf séu í boði handa þessum starfsmönnum strax.

Kv.Sigurjón Vigfússon 

Rauða Ljónið, 23.2.2007 kl. 16:50

2 Smámynd: Dofri Hermannsson

Það verður að ráðast að rótum þess vanda sem fær fyrirtæki eins og Marel til að leggja niður starfsstöð eins og á Ísafirði og svipta þar með 25 fjölskyldur og bæjarfélagið tekjum sínum. Hluti af ástæðunni er greinilega skortur á samfélagslegri ábyrgð en það eru fleiri ástæður og þær snerta fleiri fyrirtæki en Marel. T.d. er hár flutningskostnaður eftir að strandsiglingar voru lagðar af mörgum erfiðar, vondar samgöngur eru mikill dragbítur á flesta starfsemi og einnig mætti nefna að raforkukostnaður hefur hækkað um 30% eftir breytingar ríkisstjórnarinnar á raforkulögum, sem áttu víst að tryggja svo góða samkeppni. 

Samfylkingin hefur lagt áherslu á að bæta úr þessu. Vestfirðingar þurfa jafnvel enn meira á því að halda en aðrir landsmenn að það verði skipt um ríkisstjórn í vor. Það er komið nóg af vanefndum loforðum stjórnarflokkanna.

Dofri Hermannsson, 23.2.2007 kl. 18:58

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ólína mín nu þurfum við bara að bretta upp ermarnar og reyna að gera okkar til að þarna rísi einfaldlega nýtt fyrirtæki.  Þekkingi og reynsla er til staðar.  Fjandinn hafi það, þetta er nákvæmlega sama og kvótinn, menn bera einfaldlega enga ábyrgð.  Eini munurinn er að samkvæmt stjórnskránni á þjóðin kvótann, en stjórnvöld hafa gefið hana vinum og kunningjum.  En þau hafa lika séð til þess að fjarað hefur undan fyrirtækjum á landsbyggðinni, með óhóflegum flutningskostnaði og tilheyrandi.  Burt með þessa fjandans ríkisstjórn.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.2.2007 kl. 18:59

4 identicon

Heil og sæl jafnaldra, og þið öll !

Afleit tíðindi, virðist vera sem fyrirtæki, sem hasla sér völl utanlands, þótt með íslenzkan uppruna séu; og byggð á íslenzkum stoðum aukinheldur; geti, í krafti arðsemiskrafna, já og oft sérlundar stjórnenda, komið fram við starfsmenn sína og byggðalög, hvar þau starfa, eins og raun ber of oft vitni um.

Sýnist mér, sem Ísfirzkir megi, og þurfi að snúa bökum saman, til einhvers þess Póls ígildis, sem fyrir var, hjá ykkur vestra. Auðvitað yrðu opinberir sjóðir að koma þar að, hið skjótasta, í upphafi, enda eiga Vestfirðir það allverulega inni, hjá þjóðinni, hafa nógu lengi borið skarðan hlut frá borði gnægtanna, hverjar yfirhlaðnar hafa verið, við miðbik Faxaflóans, enda slagsíðan aldrei sýnilegri, sem nú.

Með baráttukveðjum, úr Efra- Ölfusi;  Árnesþingi /   

Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum    

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 23.2.2007 kl. 23:01

5 identicon

Hvaða samfélagslega ábyrgð ber Marel? Svar: Enga.

 Marel ber ábygð fyrst og fremst gagnvart sínum hluthöfum. Marel ber að  gæta þess að arðsemin sé sem mest fyrir sína hluthafa og skila þeim arði. Marel er ekki félagsmálastofnun.

Ólína og fleiri verða að skilja það að til þess að hægt sé að skapa öflugt fyrirtæki sem skilar arði og fólki vinnu þarf arðsemin að vera í lagi. Óhagkvæmar rekstrareiningar verða að víkja.

Þannig er heimurinn í dag, hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

klakinn (IP-tala skráð) 24.2.2007 kl. 02:58

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Svona er fyrirtækjafasisminn. Frjálshyggja hinna fáu feitu.  Þetta er nákvæmlega sama áhætta og tekin er með stóriðjustefnunni. Þau stóru erlendu fyrirtæki, sem hér eru geta tekið sig upp þegar þeim sýnist og þar er arðsemiskrafan ofar öllum mannlegum gildum.  Þetta á sér fjölda fordæma, þar sem samfélögum er snúið frá hefðbundnu lífsviðurværi yfir í iðnað, sem síðan fer og skilur allt eftir bjargarlaust. Þau fyrirtæki sem við hýsum hér eru alræmd af þessu.  

Nú ef stjórnvöld samþykkja ekki útþenslu, orkuverð eða lægri gjöld, þá hóta þeir að fara og hafa því kúgunarvald eins og berlega kom í ljós í Straumsvíkurmálinu.  Þetta er svona  og sorrý Stína, þar til menn sýna meiri fyrirhyggju til framtíðar eða breyta áherslum í iðnaði. 

Jón Steinar Ragnarsson, 24.2.2007 kl. 03:51

7 identicon

Þá höfum við.  Það er talað um að byggja þurfi upp hátækniiðnað á landsbyggðinni í staðinn fyrir stóriðju.  En það hefur sýnt sig að það er ekki hægt.  Þess vegna er stóriðja lausnin.  Ég get ekki ímyndað mér að Actavis, Össur eða fleiri af þessum útrásarfyrirtækjum hafi áhuga á að koma að uppbyggingu hátæknistarfa á landsbyggðinni frekar en Marel eða Síminn, svo gleymum því.  Enn og aftur, fleiri stóriðjur.

Eitt sinn sagði afi minn mér að sá sem gefur skít í uppruna sinn sökum hroka og hégóma, verður fyrir skítkasti sjálfur og mun því farnast illa á nýjum slóðum.  Er það ekki það sem Marel er einmitt að gera nú?

Velkomin til Íslands; Alcoa, Alcon, Microsoft, Boeing, Ford, Rusal og fleiri sem virkilega vilja skapa vinnu á Íslandi annarsstaðar en í Stór-Reykjavíkursvæðinu.  Margfeldisáhrif þessara fyrirtækja eru öllum til góðs.

Örn Jónasson (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 21:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband