Færsluflokkur: Umhverfismál

Þeim væri nær að koma að borðinu

ísafj.höfnin08.kári jó Jómfrúarræðan mín við utandagskrárumræðurnar í gær fjallað um fyrirhugaðar breytingar á kvótakerfinu. Mál sem er eitt veigamesta réttlætismál í íslensku samfélagi um langa hríð. Það varðar ekki einungis eignarétt þjóðarinnar á auðlind okkar í hafinu - heldur einnig afkomu þeirra byggðarlaga sem frá upphafi Íslandsbyggðar hafa nýtt sér fiskimiðin við landið.

Innköllun aflaheimilda í áföngum á 20 árum í samráði við þá sem eiga hagsmuna að gæta er ekki umbylting á þessu kerfi og mun ekki leiða hrun yfir sjávarútveginn. Þvert á móti er hún sanngjörn og hófsöm leiðrétting á þessu óréttláta kerfi.

Málið snýst um löngu tímabæra leiðréttingu á ranglátu framsalskerfi fiskveiðiheimilda - kerfi sem hefur í sér innbyggða meinsemd og mismunun. Við erum hér að tala um  kerfi sem samkvæmt úrskurði Mannréttindanefndar SÞ brýtur mannréttindi og hindrar eðlilega nýliðun, þar sem menn eru tilneyddir að gerast leiguliðar hjá handhöfum aflaheimildanna. Kerfi þar sem aflaheimildirnar voru upphaflega færðar útgerðunum endurgjaldslaust í hendur - og eru nú meðhöndlaðar sem hvert annað erfða- og skiptagóss. Ranglátt kerfi sem felur í sér samskonar meinsemd skuldasöfnunar og yfirveðsetningar og þá sem olli efnahagshruninu í haust.

Þetta frjálsa framsalskerfi fiskveiðiheimilda - kvótakerfið - er eins og hver önnur mannasetning: Það var illa ígrundað í upphafi, og leiddi af sér alvarlega röskun og atvinnubrest í heilum byggðarlögum. Atvinnubrest sem risti mun dýpra en það atvinnuleysi sem nú ógnar almenningi á suðvesturhorninu.

Nú loksins, stendur til að leiðrétta þetta ranglæti. Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar er algjörlega skýr í þessu efni: Ríkisstjórnin hefur lýst yfir vilja til þess að gera nauðsynlegar, og löngu tímabærar breytingar á kvótakerfinu. Nú er lag - og nú er nauðsyn, því að óbreyttu eigum við það á hættu að fiskveiðiauðlíndir þjóðarinnar verði einfaldlega teknar upp í erlendar skuldir og hverfi þar með úr höndum okkar Íslendinga. Svo vel hefur útgerðinni tekist til - eða hitt þó heldur - við að höndla þá miklu gjöf sem henni var færð á kostnað byggðarlaganna fyrir tæpum aldarfjórðungi.

Og nú er gamli grátkórinn, sem svo var kallaður hér á árum áður, aftur tekinn að hljóma, í háværu harmakveini. Nú hrópa menn um yfirvofandi hrun, tala eins og að hér eigi að umbylta kerfinu á einni nóttu.

Málflutningur þeirra sem harðast hafa talað gegn hinni svokölluðu fyrningarleið er í litlu samræmi við tilefnið og á meira skylt við sérhagsmunagæslu undir yfirskini stjórnmála.

Hagsmunaaðilum í sjávarútvegi væri nær að ganga til samstarfs við íslensku stjórnvöld um nauðsynlegar breytingar á þessu kerfi. Þiggja þá útréttu hönd sem þeim hefur verið rétt, koma að borðinu og vera hluti af þeim sáttum sem þarf að ná við sjálfa þjóðina  (ekki bara útgerðina) um þetta mál.

--------------

Utandagskrárumræðuna í heild sinni má sjá hér á vef Alþingis (fyrst er hálftíma umræða um störf þingsins (það má hraðspóla yfir hana) - svo taka sjávarútvegsmálin við ).


Bloggað fyrir Vestfirði!

KubburOddurJonsson Ég sé á mínum fyrstu bloggfærslum frá því fyrir tveimur árum, að ég hef upphaflega byrjað að blogga fyrir Vestfirði. Olnbogabarnið sem mér er svo kært og ég hef  nú deilt kjörum með um allnokkra hríð.

Upphaflegur tilgangur minn með því að kveðja mér hljóðs á þessum vettvangi,  var nefnilega sá að koma Vestfjörðum inn í umræðuna og vekja máls á ýmsu sem höfuðborgarbúum er hulið varðandi aðstæður og búsetumál á landsbyggðinni. Tilefnið var alvarleg röskun sem varð í atvinnulífi Ísfirðinga um svipað leyti. Sú staða leiddi til þess að ég og fleiri efndum til borgarafundar undir slagorðinu: Vestfirðir lifi! Við kölluðum þingmenn og ráðherra til fundarins og hleyptum af stað mikilli umræðu um stöðu mála.

Það er nú einhvernvegin þannig að þegar ég er spurð hvers vegna ég vilji búa “þarna fyrir vestan” eins og það er yfirleitt orðað, þá fylgir spurningunni eitthvert fas eða svipur. Þetta er sami svipurinn og kemur á fólk þegar það talar um “fjárstreymið til  landsbyggðarinnar” eins og nauðsynleg byggðaúrræði eru stundum nefnd.

En sannleikurinn er sá, að þrátt fyrir ýmsa erfiðleika sem dunið hafa yfir þetta landssvæði, er gott að búa hér fyrir vestan. Hér á Ísafirði stendur menning með miklum blóma, sérstaklega tónlistin. Hér er mikil ósnortin náttúra allt um kring og hvergi fegurra á sólbjörtum dögum en við Ísafjarðardjúp.

Við sem viljum búa hér eigum ekki að þurfa að réttlæta þá ákvörðun okkar fyrir neinum. Við eigum einfaldlega að sitja við sama borð og aðrir landsmenn þegar kemur að almennum búsetuskilyrðum og atvinnuháttum. Við greiðum okkar skatta og skyldur. Og þrátt fyrir þá röskun sem kvótakerfið hefur valdið hér í sjávarbyggðum, er landshlutinn í heild sinni drjúg uppistaða þjóðartekna.

Nú þegar fer að hitna í kolum fyrir næstu Alþingiskosningar er ekki úr vegi að minna á að það er löngu tímabært að Vestfirðir fái að búa við samskonar samgöngur, fjarskipti, flutningskostnað, menntunarkosti og almenn skilyrði í atvinnulífi og aðrir landshlutar. Að þessi hluti landsins sé samkeppnisfær. Og þó að ýmsu hafi verið þokað áleiðis er mikið ógert enn.

Brýnastar eru framkvæmdir í samgöngumálum og fjarskiptum - en síðast en ekki síst þurfum við: Sanngjarnar leikreglur! Meira um það síðar.

-----

PS: Myndina hér fyrir ofan tók Oddur Jónsson af Kubbanum í Skutulsfirði


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband