Færsluflokkur: Lífstíll

Lífsgæðin á landsbyggðinni

DyrafjordurAgustAtlason Íbúum á Vestfjörðum fjölgaði um 166 frá 1. júlí í fyrra til 1. júlí á þessu ári á meðan landsmönnum fækkaði um 109. Þetta las ég á fréttasíðunni skutull.is  haft eftir Hagstofunni

Langt er síðan Vestfirðingum hefur fjölgað annað eins á milli ára.  Þeir eru nú 7.445 talsins og hefur þeim þar með fjölgað um 2,3% milli ára, sé rétt reiknað. Wink  

Ein afleiðing kreppunnar á Íslandi virðist ætla að verða sú að hagur landsbyggðarinnar vænkist. Fólk sér nú fyrir sér fleiri ákjósanlega búsetukosti en borgina. Víða úti á landi er húsnæði ódýrara en á höfuðborgarsvæðinu, vegalengdir styttri, öll þjónusta nær manni og um leið lipurri. Þar  er atvinnuleysi víðast hvar lítið. Fólk kemst í nánari snertingu við náttúruna, stutt er í gönguleiðir, skíðalönd og á aðrar útivistarslóðir. skidi-ReykjavikIs

Í litlu samfélagi verður einstaklingurinn stærri en hann annars væri -  það getur verið ótvíræður kostur, þó stundum sé það líka galli.  En í litlum byggðarlögum skipa allir máli.

Raunar sýna hagstofutölurnar að þrátt fyrir fækkun á landsvísu, þá fjölgar íbúum í flestum landshlutum nema á Austurlandi og Vesturlandi.  Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði bæði í Hafnarfirði og Kópavogi en fólki fækkaði hinsvegar í Reykjavík.  Á þessari stundu er ekki gott að segja til um hvaða þýðingu þetta hefur fyrir höfuðborgina - enda liggur ekki fyrir nákvæm greining á því að hvaða þjóðfélagshópar það eru sem eru að yfirgefa borgina, og í sumum tilvikum landið. Við verðum því sjálf að geta í þær eyður. 

 En það eru þó góðar fréttir að landsbyggðin skuli vera inni í myndinni sem vænlegur og raunhæfur búsetukostur fyrir fjölda fólks - enda held ég að þeir sem ala allan sinn aldur í Reykjavík og næsta nágrenni hennar fari mikils á mis. Kostir þess að búa úti á landi verða aldrei skýrðir fyrir þeim sem ekki þekkir til af eigin raun, því þar erum við að tala um lífsgæði sem ekki mælast í hagtölum.

kyr2

Ópólitísk helgi - og C-próf á hundinn!

snaefellsjokull Það var svoooo gott að komast burt úr bænum um helgina. Varpa frá sér áhyggjum af afdrifum lands og þjóðar og halda á vit jökulsins: Arka um lyngi  vaxnar hlíðarnar, krökkar af berjum  -  æfa hundinn - hitta félagana - reyna á sig í brekkunum - leggjast milli þúfna í sólskininu og úða í sig aðalbláberjunum.

Koma svo þreytt heim að kvöldi - horfa á sólina setjast í hafið öðrumegin , tunglið rísa á hálfbláum himninum hinumegin og jökulinn loga.

Dásamlegt!

Jamm, ég brá mér á æfingu  upp á Gufuskála með Björgunarhundasveitinni og tók C-próf á hundinn í víðavangsleit. Joyful Ó, já - gekk bara vel.

skutull.sumar08

Og nú er hann á leiðinni norður á Ísafjörð með björgunarsveitarbílnum þessi ræfill - Skutull minn - eftir langa og erfiða helgi í lífi unghunds. Þar bíða hans góðar móttökur, lærleggur af lambi o.fl. notalegt. Húsmóðir hans kemur svo þegar búið er að bjarga þjóðarhag í þinginu. Wink

Nú þegar hundurinn hefur tekið bæði byrjendaprófin í víðavangs- og vetrarleit tekur alvaran við. Það þýðir víst að maður þurfi að fara að komast sér í almennilegt form. Blush

Við sjáum nú til með það.

 

 


Gufuskálar!

Þó að mikil spenna ríki nú í Ice-save málinu og óljóst sé um afdrifin, þá er ég á leið vestur á Gufuskála að æfa hundinn og ætla að vera þar um helgina, enda get ég lítið gagn gert annað en að hugsa hlýtt til fjárlaganefndar.

Ætla að reyna að halda mér vakandi að þessu sinni, á báðum leiðum. Wink

Eigið góða helgi öllsömul.


Strandveiðarnar færa líf í hafnir

Smábátar Þingmenn Sjálfstæðisflokksins gefa lítið, "jafnvel ekkert" (svo ég vitni í þeirra eigin orð) fyrir það líf í höfnum sem strandveiðarnar hafa fært sjávarbyggðunum í sumar. Neibb - þeir finna þessu nýja fyrirkomulag allt til foráttu. Nú síðast það helst hversu óhagkvæmar fiskveiðar þetta séu vegna þess hversu margir hafa stundað þær og fært fisk að landi. Woundering

Reynslan í sumar sýnir að 505 bátar hafa farið á sjó og veitt rétt tæplega 4 þúsund tonn af fiski í 4.600 löndunum.

Þetta er gleðiefni fyrir flestalla (nema að sjálfsögðu varðhunda stórútgerðarinnar sem vill ekkert af þessum veiðum vita). 

Reynslan af þessu kerfi verður metin í lok veiðitímabilsins nú í haust. Nú þegar hefur komið í ljós að huga þarf betur að svæðaskiptingunni, því nú eru menn búnir að veiða allt sem þeir mega á svæði A (norðvesturmiðin) en á öðrum svæðum (B, C og D) hafa þeir veitt 30-50% af því sem leyfilegt er. Þetta kallar á sérstaka skoðun.

EN ... það er ólíku saman að jafna yfirbragði íslenskra hafna nú en áður þegar deyfðin var allt að drepa og sjávarútvegurinn beindist aðallega að þörfum stórútgerðarinnar og verksmiðjuskipanna sem landa á örfáum stöðum og eiga fátt sameiginlegt með smábátum á strandveiðum í hinum smærri byggðum.

Málið kom til umræðu í þinginu í dag þar sem  ég svaraði fyrirspurn Illuga Gunnarssonar (hér) sem fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins blönduðu sér í og nokkrar umræður spunnust í framhaldinu (t.d. hér).  Þetta er ekki langt.

Jebb, það getur verið líf víðar en í höfnum landsins. Wink


Gleði og stolt

GayPrideRoses "Alltaf grunaði mig þetta!" sagði hann við mig sigri hrósandi gamall samverkamaður sem ég hitti á miðjum Laugaveginum í dag. Ég gekk þar í humátt á eftir Gleðigöngunni og hafði valið að fara á eftir fánanum sem á stóð  "stoltar fjölskyldur".

"Þú ert auðvitað ein af þeim" sagði hann og klappaði á öxl mína skælbrosandi.  

 "Ég er stoltur aðstandandi eins og aðrir hér" svaraði ég umhugsunarlaust og áttaði mig ekki strax á því hvað maðurinn var að fara.

En þegar ég sá brosið hverfa eins og dögg fyrir sólu fyrir örvæntingarfullum vandræðasvip - þá varð ég að stilla mig um að skella ekki upp úr. 

"Takk fyrir komplímentið" sagði ég með blíðu blikki þegar ég sá hvað maðurinn var miður sín. Svo hélt ég mína leið. Hann stóð orðlaus eftir undir ásakandi augnaráði eiginkonunnar sem var við hlið hans. Þessi skondna uppákoma var einhvernvegin eins og atriði úr danska myndaflokknum Klovnen - án þess að ég geti skýrt það nánar (mér er enn skemmt þegar ég hugsa um þetta).

Annars var gríðarleg stemning í bænum og mikill mannfjöldi. Ég hafði mælt mér mót við vini mína á horni Barónstígs þar sem við horfðum á litríka gönguna nálgast og slógumst svo í hópinn þegar vörubílarnir  með skemmtiatriðunum voru farnir framhjá. Hvarvetna var fólk með litríkar blómfestar um háls og marglita fána. Á Arnarhóli var þjóðhátíðarstemning - einhver þægileg blanda af rólegheitum og stuði.

Aðstandendur göngunnar hafa sannarlega ástæðu til að vera bæði  glaðir og stoltir í dag.


mbl.is „Stærsta gangan til þessa“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hughrif af Grænlandi

Hér koma nokkrar myndir sem ég tók í ferð minni til Grænlands. Þar varð ég fyrir sterkum hughrifum af ýmsu sem fyrir augu bar og gæti skrifað langt mál um það allt  - ef ég væri ekki svona illa haldin af sjóriðu eftir siglinguna með herskipi hennar hátignar, sem nefnt er eftir Einari Mikjálssyni landkönnuði.  Nánari frásögn bíður betri tíma, en myndir segja meira en mörg orð.

Hér sjáið þið hvernig sólin sest á bak við Grænlensku fjöllin - sem eru helmingi hærri en þau Íslensku, firðirnir margfalt lengri og dýpri ...

P1000896
Húsin standa á nöktum klöppum víðast hvar - þessi mynd er tekin í Arzuk
P1000929
Kjöt af Moskusuxa (sauðnauti) er herramannsmatur - en ekki veit ég hvað þeir ætla sér með þessar lappir sem raðað var svo snyrtilega upp við húsvegg einn í Arzuk
P1000936
Mánaberg heitir þetta fagra fjall sem blasir við úr Grönnedal og víðar. Á tindi þess má finna fagra steina sem bera í sér mánaljósið og heita eftir því mánasteinar
P1000918
Veiðimenn í Arzuk
P1000933
Og hér sjáið þið Íslandsdeils Vestnorræna ráðsins ásamt íslensku fyrirlesurunum - góður hópur ;)
P1000912 

Og kannski meira í vændum?

solstafir Ég var víðsfjarri jarðskjálftanum sem reið yfir í gærkvöld, sem betur fer, enda í mér beygur við jarðskjálfta frá barnæsku. Ég gat þó ekki varist því að hugsa til Láru nokkurrar Ólafsdóttur sem spáði jarðskjálfta þann 27. júlí. Hún var auðvitað höfð að háði og spotti strax daginn eftir, þegar enginn kom skjálftinn. Við Íslendingar erum hvatvíst fólk eins og dæmin sanna.

Nú hafa fréttmenn haft samband við Láru á ný, og ekki batnar það: Hún segir enn stærri viðburði í aðsigi.

Ég skal játa, að ég var ekkert sérlega hissa á því að þessi skjálfti skyldi koma svo skömmu eftir spádóm sjáandans. Eins og aðrir Íslendingar er ég höll undir það að fleira sé milli himins og jarðar en augað greinir og vísindind fá skilgreint.

Við Íslendingar erum náttúrutengt og næmt fólk. Berdreymi er til dæmis viðurkenndur hæfileiki og trúlega kannast allir við einhvern í sinni fjölskyldu sem hefur slíkt næmi að geta séð aðeins lengra nefi sínu.

Jamm ... nú sjáum við hvað setur.


mbl.is Snarpur jarðskjálfti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Jarmur fogla" og fénaðar - vel heppnuð útkallsæfing

normal_IMG_0067Bærilega tókst útkallsæfingin með björgunarhundunum í nótt - en ég verð að játa að ég er svolítið syfjuð eftir þetta allt saman, enda var ekki nokkur svefnfriður í sjálfri sumarnóttinni fyrir jarmi "fogla" og fénaðar. Hafði ég þó hugsað mér gott til glóðarinnar að sofa undir beru lofti í "næturkyrrðinni".

Ævintýrið hófst eiginlega strax í gærkvöld, þegar við komum að Hæl í Flókadal og fengum þar höfðinglegar móttökur hjá heimilisfólkinu sem bar í okkur góðan mat og heitt kaffi.

Sex úr hópnum höfðu það hlutverk að vera "týnd". Við vorum vakin klukkan þrjú í nótt og ekið með okkur  sem leið lá niður í Stafholtstungur þar sem við áttum að fela okkur á mismunandi stöðum. Leitarteymin fimm voru svo kölluð út um klukkutíma síðar.

Ég fann mér góðan felustað í klettaskorningi, skreið ofan í svefnpokann, breiddi yfir mig feluábreiðuna og hugðist, eins og fyrr segir, sofa til  morguns í lognblíðri sumarnóttinni. En ... það var bara ekki nokkur svefnfriður fyrir blessaðri náttúrunni. Woundering 

Ekkert sker meir í eyrun og hjartað en móðurlaust lamb sem grætur út í næturkyrrðina. Og ef einhver heldur að fuglar himinsins sofi um sumarnætur, þá er það misskilningur. Þeir eru nefnilega á stanslausri vakt yfir ungum sínum. Þeim er meinilla við útiliggjandi björgunarsveitarmenn, og láta það óspart í ljósi með miklum viðvörunarhljóðum og hvellu gjalli við minnstu hreyfingu. 

En ég lét nú samt fara vel um mig, og hlustaði á þessa nætursymfóníu.  Heyrði hundgá í fjarska og fjarlæg fjarskipti - enda hljóðbært í logninu. Virti fyrir mér tvo svartbaka elta smáfugl út undir sjóndeildarhring. Ekki sá ég hvernig sá eltingarleikur endaði - en víst er að hann hefur endað illa fyrir einhvern og vel fyrir einhvern annan. Þannig er blessuð náttúran í allri sinni tign.

Ég var sú fyrsta sem fannst af þeim sem týndir voru. Það voru þeir félagarnir Krummi og Gunnar Gray sem fundu mig klukkan sjö í morgun. 

Æfingin stóð í sex tíma. Á eftir var haldin höfðingleg grillveisla á Hæl, og að henni lokinni voru unghundarnir æfðir. 

Skutull minn stóð sig vel, og nú vonast ég til að geta tekið C-prófið á hann í víðavangsleit í ágúst  - að því gefnu að allt gangi að óskum hér eftir sem hingað til. 

lfljtsvatnma2009002-vi


Svolítil leiðrétting til Þórs Saari ... annars er ég farin á útkallsæfingu ...

... upp í Borgarfjörð, ætla að liggja þar í tjaldi í nótt og ekki að hugsa meira um pólitík þessa helgina. Ice-save getur beðið betri tíma.

En ég sá á visi.is að Þór Saari réðist á mig heiftúðlega með ósannindum um að ég hefði hlegið að eineltistali Birgittu Jónsdóttur í þinginu á föstudag og verið með framíköll. Lágt þykir mér maðurinn leggjast í þessum málatilbúnaði, enda fer hann með hrein ósannindi.

Hér er tengillinn á ræðu Birgittu - og dæmi nú hver um sig um það sem þarna fór fram - ég ætla ekki að svara því frekar.

En .. nú streyma félagar Björgunarhundasveitar Íslands upp í Flókadal þar sem útkallsæfing mun fara fram eldsnemma í fyrramálið. Sjálf er ég ekki með fullþjálfaðan hund, þannig að hann bíður þess að fá að spreyta sig síðar.

Ég verð "týnd" milli þúfna eins og fleiri. Svo verður grillað og unghundarnir æfðir.

"Sjáumst" síðar  Wink

 

P


Úr Jökulfjörðum

VebjarnarnupurFjögurra daga gönguferð í Jökulfjörðum að baki, og það var ljúft að smeygja sér undir dúnmjúka og tandurhreina sængina í gærkvöldi og hvíla lúin bein. Er svolítið þreytt í dag, en endurnærð engu að síður!

Þarna var á ferðinni sami hópur og gengur árlega um Hornstrandafriðland - hópurinn sem nú nefnist Skaflabjörn, eftir ævintýri síðasta árs (sjá hér, hér og hér). Í för með okkur að þessu sinni voru tengdaforeldrar mínir, Pétur Sigurðsson (78) og Hjördís Hjartardóttir (70). Hann gekk með alla dagana, hún hvíldi einn (eins og raunar fleiri úr hópnum, þar á meðal hundarnir tveir sem fylgdu okkur). Wink

Að þessu sinni var þó ekki farið inn í Hornstrandafriðlandið heldur í Grunnavík og gengið þaðan um fjöll og fjörur.

Ferðin hófst með bátsferð frá Bolungarvík á föstudagsmorgni yfir að Berjadalsá á Snæfjallaströnd. Þaðan gengum við yfir í Grunnavík. Á leiðinni varð það óhapp að Kristín Böðvars féll um grjót og olnbogabrotnaði. Við vorum sem betur fer með góða sjúkrakassa meðferðis og gátum búið um brotið og spelkað það, enda enga aðra aðstoð að fá þarna uppi á fjallinu. Kristín harkaði af sér, tók eina verkjatöflu og gekk til byggða (3 klst). Góður kunningi okkar á Ísafirði var kallaður til aðstoðar og kom hann á bátnum sínum yfir í Grunnavík og skutlaði henni á sjúkrahúsið á Ísafirði þar sem gert var betur að brotinu. Síðan var mín kona komin aftur í Grunnavík seinna um kvöldið, tilbúin í göngu næsta dags.  

Já það eru jaxlar í þessum hópi sem láta hvorki beinbrot né aldur hefta sína för. Cool

Í Grunnavík beið farangurinn okkar og slegið var upp tjöldum. Við Helga Magnea og Pétur Sigurgeir skelltum okkur í sjóbað en aðrir drifu sig í heita pottinn sem þarna er.

Daginn eftir gengum við út Staðarhlíðina með stórgrýttri fjörunni út að Kollsá og þar upp á Staðarheiðina aftur til Grunnavíkur. Fjaran er stórgrýtt og illfær og getur ekki talist gönguleið. Ég ræð fólki frá að fara hana.

mariuhornÞriðja daginn, sunnudaginn, gengum við á Maríuhornið. Um kvöldið fengum við notalega sögustund á Friðriki ferðabónda í Grunnavík sem bauð okkur í bæinn eftir kvöldmatinn.

Í gær, mánudag, gengum við síðan frá Grunnavík yfir Staðarheiðina, niður hjá Kollsá og áfram út að Flæðareyri þangað sem báturinn átti að sækja okkur. Raunar var ekki lendandi á Flæðareyri svo við röltum til baka inn í Höfðabótina þangað sem báturinn stefndi, og þar komst tuðran í land til að ferja okkur um borð.

Eins og alltaf eftir þessar gönguferðir er ég lúin en alsæl og hvíld á sálinni.

Framundan bíður Ice-save málið í þinginu og fleira sem krefst einbeitingar ... en ég er til í slaginn!

FootinMouth

PS: Ég get því miður ekki sett inn mínar eigin myndir strax þar sem ég hef ekki komist í ferðatölvuna mína. Myndina efst á síðunni fann ég fyrir all löngu á vefnum en veit því miður ekki hver tók hana, hún er af Vébjarnargnúpi tekin af sjó. Myndin af Maríhorninu er fengin á vef SAF - hún er líka tekin af sjó. Svo er hér mynd tekin í Hlöðuvíkurskarði á fyrsta degi ferðar í fyrra .

Hlöðuvíkurskarð4

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband