Færsluflokkur: Menning og listir

Verum umræðunni til sóma

blómÞegar ég byrjaði að blogga fyrir tæpum tveimur árum, undirgekkst ég ákveðna skilmála sem eiga að gilda um alla bloggara. Þar segir m.a.:

Notandi samþykkir að miðla ekki ólöglegu efni, áreiti, hótunum, særandi skrifum eða nokkru öðru sem getur valdið skaða. Notandi samþykkir sérstaklega að miðla ekki háði, rógi, smánun, ógnun eða ráðast á mann eða hóp manna vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar, í samræmi við ákvæði 233. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þetta þýðir að sjálf ber ég ábyrgð á því sem sagt er á þessari bloggsíðu. Það er ekki nóg að ég sjálf gæti orða minna, heldur hef ég skyldu til að birta ekki á minni síðu efni sem felur í sér áreiti, hótanir eða særandi skrif, hvað þá háð, smánun, ógnun eða aðför að einstaklingum eða hópum.

Að gefnu tilefni neyðist ég nú til að árétta þetta. Um leið tek ég skýrt fram að hér eru allar skoðanir velkomnar svo framarlega sem framsetning þeirra er innan velsæmismarka. Séu þær það ekki áskil ég mér allan rétt til að eyða þeim út.

Í öllum bænum, berum þá virðingu fyrir eigin lífskoðunum og annarra, að skrif okkar séu málstaðnum og okkur sjálfum til sóma. Og þið sem hafið gengið hvað lengst í reiðiskrifum ykkar með því að uppnefna fólk, smána það og lífsskoðanir þess með niðrandi samlíkingum - ekki svína út bloggsíður annarra með þessháttar skrifum. Stofnið ykkar eigin bloggsíður og takið þar sjálf ábyrgð á orðum ykkar.

Að þessu sögðu vil ég vekja sérstaka athygli á aldeilis hreint frábærri grein eftir Einar Má Guðmundsson rithöfund sem birtist í Sunnudagsblaði Moggans í dag. Kapítalismi undir jökli nefnist hún. Snilldar grein - skyldulesning.

Eigið góðan sunnudag.


Glimrandi tónleikar; handleggsbrotinn stjórnandi; börn í yfirliði ... semsagt: Viðburðaríkt kvöld

valkyrjurdes06Tónleikarnir okkar Valkyrjanna og stúlknakórsins tókust glimrandi vel í gærkvöldi. Ég fann röddina aftur. Því fór nú ekki eins og Leirverjinn Björn Ingólfsson hafði spáð mér þegar ég kveinkaði mér undan raddþreytu fyrr um daginn:

Frekar illa er frúin stödd,
frá því okkur segjandi
að hún hafi enga rödd
og ætli að syngja þegjandi. Whistling

 

Tónleikarnir tókust bara vel, held ég. Að minnsta kosti var ekki annað að sjá og heyra á tónleikagestum. Að vísu leið yfir eina stúlkuna í blálokin á tónleikunum, en það náðist að grípa hana áður en hún skall í gólfið. Daginn áður hneig önnur stúlka í yfirlið á æfingu, þannig að þið sjáið að það getur gengið á ýmsu þegar mikið stendur til.

 Eftir tónleikana komum við saman til þess að halda upp á vel heppnað kvöld. Þá vildi ekki betur til en svo að stjórnandinn okkar rann í hálkunni framan við húsið og handleggsbrotnaði. Frown

Þetta skyggði verulega á gleðina - enda varð uppi fótur og fit með tilheyrandi pilsaþyt og rassaköstum eins og gengur í kvennahópi. Það var hringt á sjúkrahúsið og útvegaður bíll. Aumingja Ingibjörgu var troðið í aftursætið með blessunarorðum og fyrirbænum okkar hinna.  Svo var brunað með hana sárkvalda á slysavarðstofuna þar sem búið var um brotið.

Við hinar þurftum að sjálfsögðu að fá okkur hjartastyrkjandi á meðan við biðum þess að fá fréttir af afdrifum Ingibjargar. Já, við þurftum líka að syngja svolítið til þess að róa okkur. Það tók svolitla stund. Svo þegar ljóst var að kórstjórnandinn var beinbrotin, var ekki annað tekið í mál en að ekið yrði með hana framhjá húsinu, svo við gætum komið að bílnum, kysst hana og knúsað í kveðjuskyni.

Já, það er ekki þrautalaust að halda tónleika. Þetta var svo sannarlega viðburðaríkt kvöld og verður lengi í minnum haft.

--------------------------------------------------------------------------------------------------------- 
PS: Myndin hér fyrir ofan er tekin 2006, stuttu eftir að kórinn var stofnaður.

Sungið og sungið og sungið og .... börn falla í yfirlið!

kórsöngur Ég hef verið að syngja fullum hálsi í allan dag - nú þarf ég að þegja.  Nú vil ég fá að þegja. Lengi.

Um bylgjur ljóssins berast nú
boð um mikinn fögnuð.
Upp á mína æru og trú:
Ólína er þögnuð.

Já, við æfðum af svo miklu kappi í dag að börnin voru farin að hníga niður í yfirlið. Whistling  Jæja - ég á auðvitað ekki að tala í fleirtölu. Það var ein stúlka sem hneig niður. Steinlá, litla skinnið - og pabbinn sótti hana skömmu síðar.

En það var sumsé kvennakórinn Valkyrjurnar sem þarna þandi raddöndin ásamt undurþýðum barna- og stúlknakór. Tilefnið eru tónleikar sem verða í Ísafjarðarkirkju annað kvöld. Þar munum við, flytja Ceremony of Carols og fleira jólalegt við fagran hörpuslátt og kertaljós.

En, eftir þetta hógværa yfirlið hélt æfingin áfram undir styrkri stjórn Bjarneyjar Ingibjargar Gunnlaugsdóttur, stjórnanda okkar. Hún átti svo eftir að fara út í Bolungarvík að stjórna aðventukvöldi, þannig að það var enginn tími til að drolla. Wink Svona konur eiga nú eiginlega að fá heiðursmerki.

Við í altinni töldum vissast að halda eina aukaæfingu í heimahúsi nú í kvöld - svona rétt til að styrkja nokkrar innkomur eins og gengur.

Og nú er ég sumsé búin að syngja yfir mig, eins og ég sagði ....


Faðirvorið milt og hlýtt með skuldunautum á beit

bænÉg man hvað Faðirvorið var mér mikil ráðgáta þegar ég var barn. Þegar mamma sagði "nú skulum við fara með faðirvorið" hugsaði ég ósjálfrátt um ilmandi vor kennt við föðurinn á himnum. Og í þessu milda vori reikuðu skuldunautin, skjöldótt og sælleg um iðagræn tún himnaríkis þar sem þau slöfruðu í sig safaríkt góðgresi. Umhverfis sveimuðu englarnir og dreifðu molum hins daglega brauðs niður af hvítum skýjahnoðrum, svona eins og þegar börnin gefa öndunum á tjörninni.

Já, merkingarfræðin var ekki beint að sliga barnshugann - enda má segja að sýn mín á inntakið hafi verið einhverskonar "innri skilningur" - sannur á sinn hátt.

Enn eru börn að læra Faðirvorið án þess að botna upp eða niður í merkingu þess. Þau fara bara með þuluna sína. Sjálf hef ég stundum hugsað mér að uppfæra bænina, til þess að fara skiljanlega með hana þegar kemur að því að setjast á rúmstokkinn með barnabörnunum og signa þau fyrir nóttina. Hef ég þá hugsað mér hana á þessa leið:

Faðir minn og móðir,
þú sem ert mér æðri,
helgist þitt nafn,
til komi þitt ríki.
Verði  þinn vilji
svo á jörðu sem á himni.

Veit þú mér fæði, klæði og skjól.
Fyrirgef mér syndir mínar
og ég mun sjálf fyrirgefa öðrum.

Leiddu mig um réttan veg
og frelsa mig frá öllu illu,
því að þitt er ríkið
mátturinn og dýrðin
að eilífu.

Svo myndi ég að sjálfsögðu segja amen á eftir efninu. Halo

Þar með svifi barnið inn í svefninn á dúnléttum skýhnoðra eigin hugsana með ömmukoss á kinn. 

En ... amma sæti sennilega eftir um stund og um hana færi svolítill efafiðringur: Til hvers er maður að breyta bænum? Er rétt að svipta lítið barn hlýju og mildu faðirvori bernskunnar með skjöldóttum skuldunautum á beit?

 Woundering

 

 


Menntun er meðalið!

skólabarn Þegar atvinnuleysi og atgerfisflótti eru raunveruleg vá fyrir dyrum í litlu samfélagi er aðeins eitt að gera: Láta þekkinguna flæða. Mennta fólkið! Gefa því kost á endurmenntun, framhaldsmenntun, háskólamenntun, nýrri menntun ... já, bara menntun, hvaða nafni sem hún nefnist.

Menntun og þekkingarflæði eru eini raunhæfi kosturinn sem þjóðin á til að rækta mannauð sinn, halda honum við, halda fólkinu "í formi" ef svo má að orði komast. Maður sem verður atvinnulaus getur nýtt þau tímamót til þess að byggja upp nýja hluti í lífi sínu. Til dæmis að klára doktorsritgerðina sem hefur árum saman legið í skúffunni; taka vélastjórnarréttindin sem aldrei voru tekin; meiraprófið; ljósmóðurnámið; frumgreinanámið; skipstjórnarréttindin sem hann/hún hefur lengi látið sig dreyma um ... o. s. frv.

Það er ekkert meðal betra á þeim tímum sem við lifum en menntun.

Á málþingi sem Byggðastofnun hélt um nýja byggðaáætlun s.l. föstudag flutti ég erindi um gildi menntunar fyrir landsbyggðina.  Þetta var svona eldmessa sem ég nefndi "Háskóla í hvert hérað!"  og þið getið lesið í heild sinni HÉR ef ykkur langar (glærurnar eru hér).

Í stuttu máli sagt þá lagði ég út af þeim sjálfsögðu réttindum ungs fólks að geta sótt grunn- og framhaldsskóla í heimahéraði. Þetta þykir öllum eðlilegt nú, þó það hafi ekki alltaf þótt.  En hvenær mun þykja jafn sjálfsagt fyrir ungt fólk að sækja háskólanám á heimaslóðum - þó ekki væri nema grunnháskólanám?

Hugsið um það.

GetLost

Þetta er dulítil undantekning frá annars góðu bloggfríi sem nú hefur staðið í heila fimm daga. Lifið heil, kæru lesendur mínir. Smile


Nú langar mig ekki að blogga - heldur yrkja

 

Haustfjöll 

Bak við gisnar trjágreinar
stendur fjallið
á móbrúnum
haustklæðum.

Tveir hrafnar leika í lofti.

Dökkur mýrarflákinn
dýgrænn í sumar

þá angaði lyngið.

Hlæjandi börn
gripu handfylli af berjum
með bláma um varir og vanga

rjóð af heitri sól
sæl í þýðum vindi

og veröldin söng

í bláum tindum
hvítu brimi við svartan sand.

Nú bíða fjöllin
rök og þung
blæju vetrar.

Laufið fokið burt.

haustlauf 


Styðjum björgunarsveitirnar!

neydarkall Í þessum skrifuðu orðum er ég á leiðinni niður í bæ að selja Neyðarkallinn með unglingunum í Björgunarfélagi Ísafjarðar. Síðast var Neyðarkallinn lítil kelling - svona til að minnast þess að björgunarsveitir landsins eru þéttskipaðar konum ekkert síður en körlum. Kallinn í ár er voða sætur, eins og þið sjáið - með hvíta hjálminn sinn í rauða gallanum - fínasta lyklakippa!

En Neyðarkallinn er fáröflunarátak sem er að fara af stað á vegum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar nú um helgina um allt land undir yfirskriftinni: Neyðarkall frá björgunarsveitum.  

Fjáröflun er björgunarsveitunum mikilvæg þar sem rekstur þeirra, þjálfun björgunarmanna og kostnaður við útköll byggist á slíkum fjáröflunum.

Ég ætla því að slást í hóp félaga minna í Björgunarsveitum landsins sem nú um helgina munu selja Neyðarkallinn víðs vegar um landið, í öllum helstu verslunarmiðstöðvum og samkomustöðum. Vonandi taka landsmenn vel á móti okkur og sýna í verki stuðning sinn við björgunarsveitirnar.

Annars er það að frétta af Björgunarfélagi Ísafjarðar að það fagnar í dag fagnar 10 ára afmæli sínu. Af því tilefni verða ýmsar ýmsar uppákomur, opið hús í Guðmundabúð, myndataka af öllum félagsmönnum, veisla í kvöld og fleira skemmtilegt.

En fyrst er nú að selja Neyðarkallinn - og nú ætla ég að drífa mig af stað. Smile


Nei, hættið nú!

 

minningabók Þegar ég var lítil stelpa skrifaði ég oft í minningabækur hjá vinkonum mínum. Þá setti ég gjarnan inn vísur sem ég kunni, teiknaði fugla og blóm í kringum þær og ... kvittaði svo undir alltsaman. Sama gerðu skólafélagar mínir, stelpurnar teiknuðu fiðrildi, hjörtu og blóm, strákarnir fjöll, sólskin og báta - en allir settu inn vísur eða kviðlinga ásamt "ég man þig - þú manst mig" og einhverju fleiru. Gott ef ég á ekki eina svona dagbók í fórum mínum frá gamalli tíð - og ef mér skjöplast ekki þá eiga dætur mínar svona bækur.

Nú hafa fundist tvær vísur sem Halldór Laxness skrifaði 12 ára gamall í minningabók hjá vinkonu sinni. Og menn eru farnir að fabúlera um að "hér sé kominn elsti varðveitti kveðskapur Halldórs Laxness". Það tók örfáar sekúndur að finna aðra vísuna með gúggli - eins og Guðmundur Magnússon sannreyndi og bloggaði um fyrr í dag.  Hann fann vísuna á hinum frábæra vef Skjalasafns Skagafjarðar þar sem finna má fjölmargar lausavísur eftir ýmsa höfunda. Ekki er að orðlengja það, að önnur vísan er þar kennd Þorleifi Jónssyni á Hjallalandi í Vatnsdal. Hún er svona:

Haltu þinni beinu braut
berstu því með snilli
gæfan svo þér gefi í skaut
guðs og manna hylli.

Í ljósi þessa er heldur ólíklegt að 12 ára gamall drengur hafi ort hina vísuna, svo spök sem hún er - jafnvel þó við séum að tala um Nóbelskáldið. En sú vísa er svona:

Vart hins rétta verður gáð
villir mannlegt sinni,
fái æsing æðstu ráð
yfir skynseminni.

Ég held hann hafi bara verið að skrifa vísu í dagbók - eins og þúsundir Íslendinga hafa gert á unga aldri, og gera enn.

englar

 


mbl.is Elsti varðveitti kveðskapur Halldórs Laxness í póesíbók á Vegamótastíg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver orti?

Gráttu ei þótt svíði sár.
Sinntu ráði mínu.
Heimur öll þín hæðir tár
og hlær að böli þínu.

 Þennan beiska húsgang lærði ég fyrir margt löngu - ekki fylgdi þó sögunni eftir hvern hann er. Hljómar svolítið eins og Bólu-Hjálmar, en ég veit þó ekki til þess að hann hafi ort þetta.

Og fyrst ég er byrjuð -  þá væri fróðlegt að vita höfund að tveimur vísum í viðbót, ef einhver getur hjálpað mér:

Lastaranum líkar ei neitt,
lætur hann ganga róginn.
Finni hann laufblað fölnað eitt
hann fordæmir allan skóginn.

Taktu'ekki níðróginn nærri þér
það næsta gömul er saga.
Sjaldan lakasta eikin það er
sem ormarnir helst vilja naga.

 Er  einhver þarna úti sem getur frætt mig um þetta?


Á vængjum söngsins á Tónlistardaginn mikla!

abba Í dag ætla ég ekki að hugsa um pólitík. Ég ætla bara að svífa "Á vængjum söngsins" í tilefni af því að nú er Tónlistardagurinn mikli framundan hér á Ísafirði næstkomandi laugardag. Þessi tónlistarveisla er haldin í tengslum við 60 ára afmæli Tónlistarskólans hér - og nú verður mikið um að vera. Allir kórarnir á svæðinu hafa verið virkjaðir í tónlistarflutning og íbúarnir sjálfir, því fólk mun geta komið inn á heimili bæjarbúa og hlýtt þar á tónlistarflutning heimafólks (sniðugt Smile minnir svolítið á fiskidaginn).

 Nú vill svo skemmtilega til að einkennislag Tónlistardagsins mikla er ABBA lagið "Thank you for the music" í íslenskri þýðingu. Lagið var valið í vor, áður en myndin Mama mia sló hér í gegn, áður en ABBA æðið gekk yfir landið. En nú fellur þetta alltsaman eins og flís við rass.

Ég fékk þann heiður að þýða textann og hann útleggst hjá mér "Á vængjum söngsins " . Þessari þýðingu hefur nú verið dreift í hús á Ísafirði, skilst mér, því það er ætlunin að allir taki undir með kórunum á Silfurtorginu á Ísafirði á laugardaginn. Ég verð sjálf fjarri góðu gamni, upptekin við að stjórna aðalþingi Neytendasamtakanna með meiru. En ég verð með í anda.

Fyrir þá sem vilja æfa sig, þá fer textinn hér á eftir. Og HÉR getið þið séð lagið sungið af ABBA.

En þýddi textinn er svona:


Látlaus ég virðist, ég verð sjaldan æst eða reið.
Ef ég segi sögu - þá syfjar þig trúlega um leið.
En leynivopn á ég - eitt dásemdarþing,
því kliðurinn þagnar þegar ég syng.
Það er hamingjugjöf
og mig langar að hrópa yfir höf.

Á vængjum söngsins hef ég svifið
í sorg og gleði,
sungið dátt með glöðu geði.
Án þess væri lífið svo laust við lit og róm.
Innihaldstóm
væri þá ævitilveran öll.
Á vængjum söngsins hef ég svifið
um lífsins tónahöll.

Dálítil hnáta ég dansaði af lífi og sál.
Ég dreymandi söng, því söngur var mitt eina mál.
Og oft hef ég hugsað hvers virði það er
að heyra og finna í brjóstinu á sér
þessa hljómkviðu slá,
hjartastrengina samhljómi ná.

Á vængjum söngsins hef ég svifið  ....

Þakklæti finn ég - þegar ég syng af hjartans lyst.
Rödd mína þen ég hátt svo allir heyri:
Þennan róm, þennan tón, þennan hljóm.

Söngs á vængjum svíf ég - í sorg og gleði.
Syng ég dátt með glöðu geði ,
án þess væri lífið - svo laust við lit og róm.
Innihaldstóm
væri þá ævitilveran öll.
Á vængjum söngsins hef ég svifið
um lífsins tónahöll.

-----

PS: Í dag (18. sept) leiðrétti ég textann sem var settur hér inn í fyrstu - ég hafði í ógáti tekið eldri drög að textanum. Þetta hefur nú verið lagað - þetta er endanlegi textinn hér fyrir ofan.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband