Færsluflokkur: Tónlist

Hver er í rétti - stjarnan eða ljósmyndarinn?

Æ, það nær bara engri átt þetta einelti sem frægt fólk þarf að þola af hálfu fjölmiðla og ljósmyndara. Fólk er hundelt allan sólarhringinn af ljósmyndurum sem skríða í húsagörðum og á húsþökum til að ná af því myndum við allar hugsanlegar aðstæður; þeysa um á mótorhjólum til að elta uppi einkabíla og ná myndum inn um myrkvaðar bílrúður - líkt og frægt varð þegar Díana prinsessa lét lífið.

Á fólk sem orðið hefur frægt fyrir einhverja hluti, bókstaflega engan rétt? Það virðist vera sem ljósmyndararnir séu alltaf í rétti Devil. Svo kalla þeir á samúð (og virðast fá hana) í hvert sinn sem einhver missir stjórn á sér eitt augnablik og slæmir hendi eða eys úr sér fúkyrðum. Þá fyrst er gaman - eða hitt þó heldur - og almenningur lætur ekki standa á hneykslun sinni: Hún hefur bara enga stjórn á sér manneskjan! 

Fólk mætti hugleiða hvað hefur gengið á áður en til þess kemur að "stjarnan" missir stjórn á sér - og það þarf ekki mikið ímyndunarafl til þess að sjá hversu ómanneskjulegt álag það getur verið að lifa við stöðugt áreiti af þessu tagi, eins og sumir gera.

Það veit sá sem allt veit að ég yrði BRJÁLUÐ ef ég fengi aldrei stundlegan frið fyrir einhverju fólki sem hefði það að atvinnu (og teldi það um leið mannréttindi sín) að ljósmynda mig við allar kringumstæður til þess að hagnast á því. Það getur engin manneskja þolað þetta álag til lengdar.

Ég stend með Björk - og held að alþjóðasamtök blaðamanna ættu að fara að setja alþjóðlegar siðareglur um samskipti fréttamanna og ljósmyndara við frægt fólk. Að öðrum kosti er kannski tímabært að fræga fólkiði bindist samtökum um að fá einhverskonar alþjóðlega lagavernd gegn ásóknum af þessu tagi.


mbl.is Björk réðist á ljósmyndara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valkyrjutónleikar og vandræðalegur textasmiður

Vestfirsku_valkyrjurnar Jæja, nú fengum við  - ég og Bjarney Ingibjörg, kórstjórinn minn - nóg af textanum "Við óskum þér góðra jóla" (We Wish You a Merry Christmas) og öllu talinu um graut og fleira í því annars ágæta kvæði. Svo nú bað hún mig að setja saman eitthvað hátíðlegra til að flytja við þetta lag á jólatónleikum kvennakórsins. Ég er að tala um kvennakórinn Vestfirsku valkyrjurnar, tveggja ára gamlan kór sem ég syng með.

Þetta gerði ég samviskusamlega. Halo

Svo sungum við þetta fullum hálsi á jólatónleikum Valkyrjanna í Ísafjarðarkirkju síðastliðið mánudagskvöld, hátíðlegar á svip. Fólkið klappaði. Bjarney Ingibjörg hneigði sig kurteislega fyrir okkar hönd. Allt eðlilegt.

Þar til hún fór að veifa og banda með höndunum upp í kórinn.  Við litum hver á aðra í öftustu röðinni - Errm - áttum við að veifa á móti? Hvað var að gerast? Ég leit í kringum mig - stíf eins og stólpi á mínum stað (djúp alt stendur að sjálfsögðu í báða fætur aftast Cool og lætur ekki haggast). 

Jæja, áfram veifar Bjarney Ingibjörg, og nú var mér hætt að lítast á hana. Fór að hugsa hvort hana vantaði kórmöppu - eða hvort hún hefði týnt einhverju.

Þá finn ég að einhver potar í mig. Og allt í einu eru þær allar farnar að veifa og benda mér. Shocking Þá rennur það upp fyrir mér, seint og um síðir, að ég á semsagt að koma niður til hennar - og hneigja mig. Auðvitað var ég búin að steingleyma því að ég ætti þennan texta og að þetta teldist frumflutningur á honum. Whistling 

Jæja, ég mismunaði mér niður í gegnum kórraðirnar og tók við klappinu - að mér fannst óverðskuldað - en hvað um það. Textinn hafði verið sunginn - og þó ég hafi aldrei lært hann almennilega þá var þetta nú minn texti og svona.  Hann lætur svosem ekki mikið yfir sér - en hljómar svosem ekki illa þegar hann er sunginn (þó eiginlega sé ekki einsýnt um bragreglurnar í þessu - en það verður bara að hafa það). 

 

Og hér kemur hann:

:: Nú gleðileg jólahátíð :: Nú gleðileg jólahátíð er gengin í garð.

Í kærleika'og frið við kertaljósið

 með krásir á borðum svo glöð erum erum við.

:: Nú gleðileg jólahátíð :: ...

Við klukknanna róm og klingjandi óm 

til kirkjunnar höldum í söngvanna hljóm.

:: Nú gleðileg jólahátíð ::  ...

Svo friðsæl við völd - er fegurð í kvöld 

við hugfangin störum á stjarnanna fjöld.

:: Nú gleðileg jólahátíð :: Nú gleðileg jólahátíð er gengin í garð.

 

Jamm, þannig er nú það. Annars held ég að tónleikarnir okkar Valkyrjanna hafi bara tekist bærilega þarna á mánudagskvöldið. Ég hef að vísu verið hnerrandi með hálsbólgu síðan -- en hvað er það hjá vel heppnuðum tónleikum? Wink


Tónlistarupplifun í Ísafjarðarkirkju

Ég er að koma af aldeilis hreint frábærum tónleikum í Ísafjarðarkirkju þar sem franski fiðlusnillingurinn Gilles Apap fór beinlínis á kostum. Og ekki aðeins hann, heldur allir sem að þessum tónleikum komu.

Þarna komu fram Íslenska kammersveitin og Balzamersveitin Bardukha - báðar undir forystu Hjörleifs Valssonar fiðluleikara, sem lék við "hvern sinn fingur" ef svo má segja. Hann heillaði mannskapinn gjörsamlega upp úr skónum - og virtist (a.m.k. í augum hins óbreytta leikmanns)standast nokkurnveginn samanburð við franska snillinginn.

Íslenska kammersveitin var fyrir hlé - skipuð frábæru mannvali. Eftir hlé lék Balzamersveitin undir með þeim Hjörleifi og Apap. Þar voru Ástvaldur Traustason á harmonikku, Birgir Bragason á kontrabassa - alveg ótrúlega góður - og svo senuþjófur kvöldsins, Steingrímur Guðmundsson á slagverkið. Ég kolféll fyrir honum - þvílík fingrafimi, taktvísi og hraði.  Magnaður galdur framinn þar.

Gilles Apap er sérstakur  tónlistarmaður. Hann hefur náð ótrúlegri tækni á fiðluna - svo mikilli að hann er farinn að brjóta niður helgidóma. Þá á ég við það hvernig hann brýtur upp þekkt tónverk, færir þau í nýjan búning, leikur sér að þeim, ummyndar þau beinlínis. Hljóðfærið leikur í höndunum á honum, að því er virðist algjörlega áreynslulaust.

Ef þið eigi þess nokkurn kost að hlusta á þennan mann leika á tónleikum - grípið þá tækifærið. Hann er sannkölluð upplifun.

Takk fyrir mig.


Stones brýnin söm við sig!

StonesMick Jagger Stones voru frábærir á tónleikunum sem haldnir voru í O2-höllinni í London s.l. laugardagskvöld. Þetta voru lokatónleikar tveggja ára tónleikaraðar sem þeir nefna A Bigger Bang. O2 samkomuhöllin er tiltölulega nýbyggð, tekur um tuttuguþúsund manns. Þarna eru verslanir, matsölustaðir, kvikmyndhús, allt undir einu þaki, og svo þessi gríðarlegi leikvangur þar sem hægt er að setja upp tónleika á borð við þessa! Allt mjög flott.

Jagger fór á kostum. Fyrsta lagið á tónleikunum var Start Me Up! (held sveimérþá að þeir byrji alltaf á því). Fyrst kom upp svona "intró" á risaskjá fyrir ofan sviðið, því lauk með gríðarhvelli þegar "tungan" fræga leystist upp í frumeindir, og um leið hófst trommutakturinn hjá Charlie Watts. Þið hefðuð bara átt að finna strauminn sem fór um salinn þegar trommurnar byrjuðu - ljósin upp - og svo röddin í Jagger: Start me up! (púm, tútúmm tútúmm), you start me up I'll never stop! (tútúmm túmm). Hann var flottur karlinn - og úthaldið ekkert minna en þegar hann var upp á sitt besta.

Raunar var eitthvað vesen á hljóðinu hjá þeim um miðbik tónleikanna - ég held þeir hafi hreinlega magnað of mikið upp því það var á köflum bergmál í kerfinu (sem á auðvitað ekki að gerast hjá köllum eins og Stones, ég meina hvað haldið þið að þessi rótarar séu með í laun? Það er örugglega ekki lítið). En krafturinn og stuðið bætti það upp - svo einfalt er það mál.

Lisa Fisher er alveg hreint ótrúleg. Hún fékk ekki mikið að hnjóta sín núna - söng eitt lag með Jagger, en var annars í bakröddum. Í þessu eina lagi - þar sem þau skiptust á að syngja - leiddi hann hana aftur á sinn stað áður en laginu lauk. Ætlaði greinilega ekki að láta hana hirða frá sér athyglina eða fagnaðarlætin. Hún gerði það engu að síður, því það ætlaði allt um koll að keyra þegar hún var búin - og mér finnst hann hefði mátt leyfa henni að njóta þess.

En hvað um það - hún fann ábyggilega að hún átti í okkur hvert bein meðan hún söng. Hann fann það örugglega líka Devil.

Keith er farinn að láta á sjá - en hann var sjálfum sér líkur. Sömuleiðis Charlie Watts, sem er greinilega eftirlæti Stones aðdáenda, ef marka má viðtökurnar sem hann fær yfirleitt á sviði. Enda ótrúlega flott týpa - hlédrægur, öruggur og kraftmikill.

Jamm - við munum lengi lifa á þessu. Ég ætla að orna mér við minninguna aðeins lengur, áður en ég fer að blogga um önnur tíðindi Smile


Stones tónleikar í London á morgun

Bigger bang Mick Jagger Jæja, nú er maður að loka ferðatöskunum og búa sig undir það að taka flugið til London. Framundan eru Stones-tónleikar í O2 tónleikahöllinni í London síðdegis á morgunSmile Það eru lokatónleikarnir þeirra í tveggja ára tónleikaröð sem þeir nefna A Bigger Bang!

Yngsti sonurinn fær að fara með að þessu sinni - hann er 13 ára og ekki seinna vænna að kynna hann fyrir stórtóleikahaldi af þessu tagi. Fyrir tíu árum voru systkini hans tekin á Stones-tónleika í Tívolíinu í Kaupmannahöfn - Bridges to Babylon hét sú tónleikaferð þeirra. Þá hélt maður að gömlu brýnin færu að syngja sitt síðasta hvað úr hverju - en það var öðru nær.

Í fyrravor, þegar Keith Richards ráfaði fullur upp í tré, datt niður úr því og fékk heilahristing, hélt maður líka að þetta væri búið hjá þeim. En neibb .... þeir eru eins og samviskan, gera alltaf vart við sig aftur og aftur.

Áður hef ég séð Stones á Wembley 1994 þegar þeir voru að ljúka Vodoo Lounge tónleikaröðinni. Það var frábær upplifum - ógleymanleg.

Raunar er það Siggi, bóndi minn, sem er aðal Stones-maðurinn í fjölskyldunni. Hann hefur oft farið á tónleika með þeim, og það er fátt viðkomandi þessu  (að ég held) elsta rokkbandi heimsins sem hann ekki þekkir og kann. 

Það eru þeir félagarnir Mick Jagger (64), Keith Richards (63), Charlie Watts (66), Ron Wood (60 - unglingurinn í hópnum)  sem við köllum Rolling Stones. En á tónleikum hljómsveitarinnar koma mun fleiri fram en þeir kumpánar. Mér er t.d. sérstaklega minnisstæð frammistaða Lisu Fisher þegar hún söng Gimme Shelter með Mick Jagger á Vooodoo Lounge tónleikunum á Wembley. Sömuleiðis hafa þeir á að skipa frábærum aðstoðarmönnum á ýmis hljóðfæri bæði bassa, brass, hljóðgervla, bakraddir o.fl.

Þetta verður ábyggilega frábært hjá þeim núna.

Stones

 


Blaut Hróarskelduhátíð

Roskilde07 Myndirnar frá Hróarskelduhátíðinni minna mig óþyrmilega á ömurlega unglingahátíð í Þjórsárdal, margt fyrir löngu. Mér er óskiljanlegt hvernig fólk getur skemmt sér við svona aðstæður.  Það hlýtur að vera mikill tónlistaráhugi sem rekur fólk til út í vosbúð og vatnselg af þessu tagi - djúp aðdáun á þeim sem troða upp - og svo eitthvað sem slævir skynjunina, hvort sem það er nú í fljótandi formi eða þurru.

Það fer um mig að horfa á fólk vaða foraðið og telja sjálfu sér trú um að þetta sé gaman. Úff!


Komin úr söngferðinni - og fer nú beint í hundana!

SunnukorinnFinnland Jæja, þá er ég komin úr stórkostlegu söngferðalagi með Sunnukórnum á Ísafirði til Eystrasaltslanda. Fyrsti viðkomustaður var Finnland - sungum þar undir Síbelíusarminnismerkinu (sjá mynd), líka á Esplanaden,  og svo var það hápunkturinn: Sjálf Klettakirkjan. Það var mikil upplifun ... og margt sem fór úrskeiðis, bæði fyrir tónleikana og meðan á þeim stóð.

Til dæmis tókst mér, fyrir ótrúlega slysni sem of langt mál yrði að rekja hér, að brenna hnefastórt gat á kórbúninginn minn kvöldið fyrir tónleikana í Klettakirkjunni Whistling. Ég á það hjálpsamri kórsystur að þakka, henni Hrafnhildi, að þessu varð bjargað. Hún er nefnilega völundur í höndum, og þrátt fyrir að hótelið gæti einungis útvegað okkur ónýta saumavél, sem að sjálfsögðu bilaði á meðan verið var að reyna að gera við skemmdina þarna á síðustu stundu, þá tókst henni að sauma treyjuna upp með sínum fimu fingrum. Og nú er treyjan betri ef eitthvað er. Enda sáu allir - þegar viðgerðinni var lokið - að svona styttri treyjur væru eiginlega bara klæðilegri á okkur konunum. Þannig að óhappið hefur sennilega skapað nýjan "trend" fyrir kórbúninga Sunnukórsins í framtíðinni Tounge

 Jæja, en tónleikarnir tókust vel. Þeir voru vel sóttir og viðtökur áheyrenda frábærar í lokin, mörg uppklöpp og endaði með því að salurinn reis á fætur fyrir okkur. Jamm - ekkert minna.

Sanngirninnar vegna skal þess getið að við höfðum fyrirtaks klapplið með í för þar sem makar okkar voru annarsvegar. Þeir tóku að sér hlutverk kynningarfulltrúa og aðdáenda með öllu sem því tilheyrir - klöppuðu mest og hæst og sköpuðu stemningu hvar sem við komum. Nú skil ég betur en nokkru sinni gildi þess fyrir fótboltaliðin að hafa góða aðdáendaklúbba Smile

En kórinn sjálfur átti auðvitað sinn hlut í þessu - og þá ekki síst stjórnandinn okkar hún Ingunn Ósk Sturludóttir. Hún er sjálf mezzo-sopran söngkona með djúpa og þróttmikla rödd - og það gerði auðvitað útslagið þegar hún tók lagið með okkur. Sérstaklega var áhrifamikið þegar hún söng Ave Maríu eftir Sigvalda Kaldalóns. Það eru engar ýkjur að fólk tárfelldi undir söng hennar, og eftir það áttum við hvert bein í áheyrendum.  Þá spillti ekki fyrir að undirleikari kórsins, Sigríður Ragnarsdóttir, er snillingur á hljóðfærið. Sömuleiðis BG sjálfur, hann Baldur Geirmundsson með harmonikkuna og Helga Kristbjörg Guðmundsdóttir sem sló rengtrommuna af mikilli list þegar við tókum "Húsið" (lagið góða "Húsið er að gráta" sem Helgi Björns gerði frægt en Vilberg Viggósson hefur nú útsett sérstaklega fyrir Sunnukórinn).,

Jæja, svo var haldið til Eistlands. Þar sungum við á ráðhústorginu í Tallin og héldum svo opinbera tónleika síðar um daginn í sænsku kirkjunni. Hljómburðurinn í kirkjunni var ótrúlega fagur, og satt að segja held ég að þar hafi styrkur kórsins og samstilling notið sín best.  Oft hef ég heyrt fagra Ave Maríu sungna eftir Sigvalda - en hvergi eins og þar.

Lettland Frá Tallin var haldið til Lettlands og sungið í menningarmiðstöðinni í Riga ásamt heimakór, sem að fáum vikum liðnum mun þreyta kapps í alþjóðlegri kórakeppni. Í Riga hittum við líka samkór Kópavogs sem voru á söngfeðralagi. Kórarnir slógu sig saman eitt kvöldið, borðuðu saman og tóku svo lagið, m.a. framan við hótelið þar sem báðir hóparnir gistu (sjá mynd). Kraftmikill söngur kóranna tveggja vakti óskipta athygli gesta og gangandi.

Síðustu tveimur dögunum eyddum við svo í Vilníus í Litháen. Þar gerðum við okkur glaðan dag á 17. júní með því að syngja þjóðsönginn okkar á tröppum ráðhússins. Að því loknu var haldið fylktu liði niður að Óperutorginu og sungið á leiðinni. Vakti þetta mikla athygli í Vilníus og var okkur tjáð að um fátt hefði verið meira rætt þann sunnudaginn en þessa skemmtilegu Íslendinga.

Í gær ókum við svo aftur frá Vilníus til Riga og tókum þaðan ferju yfir til Stokkhólms - gistum um borð og áttum skemmtilegt lokahóf í gærkvöldi. Mikið sungið og trallað.

Tallinn1

Ferðina kórónaði Bryndís Schram, sem var fararstjórinn okkar þessa daga. Hún er hafsjór af fróðleik um Eystrasaltslöndin, enda fylgdist hún með sjálfstæðisbaráttu þeirra í óvenjulegu návígi sem utanríkisráðherrafrú á sínum tíma (þegar Jón Baldvin tók sig til fyrir hönd Íslendinga og viðurkenndi sjálfstæði þeirra á undan öðrum). Er síst ofmælt að Bryndís átti sinn þátt í því að gera þessa ferð ógleymanlega.

Whistling 

Jæja, en nú er næst á dagskrá að halda norður í Vaglaskóg með fjölskylduna og hundinn, á nokkurra daga björgunarhundanámskeið og tjaldútilegu.

Blessað barnið hann Hjörvar minn, og tíkin hún Blíða, hafa verið í sveitinni hjá systur minni meðan við hjónin vorum á fyrrnefndu söngferðalagi. Er ekki að orðlengja að þau hafa hvort með sínum hætti notið frelsisins í sveitinni. Hann með frænda sínum og jafnaldra honum Vésteini. Tíkin með heimilishundinum á bænum, honum Sámi. Hefur þar verið óheftur aðgangur að sauðfé, hrossum og öðrum hundum - og nú er spurningin hvernig mér gengur að tjónka við hundspottið þegar við komum norður á björgunarhundanámskeiðið.  

Frá því verður kannski sagt síðar - næsta blogg kemur sennilega ekki fyrr en eftir helgina. Hafið það gott á meðan.


Söngvakeppni (austur) Evrópskra sjónvarpsstöðva

EirikurHauks Þetta var með ólíkindum. Öll lélegustu lögin komust áfram. Meira að segja Tyrkland - sú rauðgljándi, iðandi hörmung. Það vantaði bara ALBANÍU til þess að kóróna ósköpin. Sick 

Og sáuð þið landafræðina í þessu? Balkan og Austur Evrópa!

Nei, þetta er ekki lengur söngvakeppni sem endurspeglar evrópska tónlistarmenningu - ekki fyrir fimm aura. Þetta er að verða hálfgert strip-show með flugeldasýningum og lafmóðu fólki sem heldur sumt ekki einusinni lagi fyrir látum. Við höfum ekkert í þetta að gera - hreint ekki neitt.

Eigum bara að hætta þessu. Devil

En Eiki var góður -  rokkaður reynslubolti, flottur á sviðinu og söng eins og hetja. Hann er eins og Burgundi-vínin, batnar með árunum.  Kissing


mbl.is Ísland komst ekki í úrslit Eurovision
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband