Færsluflokkur: Bloggar

Það var einmitt ...

... en er það nú ekki full djarft að tala um þriggja manna þingflokk sem "hreyfingu" ??


mbl.is Hreyfingin verður til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlafælni eða fjölmiðlasýki

Johanna Síðustu daga hafa heyrst sárar umkvartanir - sem fjölmiðlar af einhverju ástæðum hafa tekið undir - að forsætisráðherra sjáist ekki lengur. Hún sé bara "ósýnileg" í fjölmiðlum.

Nú þykir mér týra.

Ég hef ekki getað betur séð en að Jóhanna Sigurðardóttir hafi verið í nánast öllum fjölmiðlum svo að segja daglega í allt heila sumar - þar til e.t.v. núna síðustu daga. Og þó hef ég varla opnað fjölmiðil án þess að sjá henni bregða fyrir, eða nafn hennar nefnt. Ég veit ekki betur en að hún hafi haldið fasta blaðamannafundi, einn og tvo í viku, í allt heila sumar, og geri enn. Það er nú eitthvað annað tíðkaðist hér áður og fyrr í tíð annarra forsætisráðherra.

Þessi lævísi og ljóti áróður, að Jóhanna sé ekki til staðar, hún sé horfin, er vitanlega runninn undan rifjum andstæðinga hennar. Þetta er þaulhugsuð markaðssálfræði, sem gengur út á það að rýra trúverðugleika þess stjórnmálamanns sem notið hefur mests trausts meðal almennings fram á þennan dag. Og það er alvarlegt umhugsunarefni að fjölmiðlar skuli spila með í þessu. Þeir ættu nefnilega að vita betur.

Hitt er svo annað mál, að Jóhanna Sigurðardóttir er ekki haldin þeirri fjölmiðlasýki sem hefur heltekið veflesta nústarfandi stjórnmálamenn. Hún lætur verkin tala, og það er góður siður, sérstaklega á krepputímum. Ég tel auk þess sjálfsagt að hún njóti - þó ekki sé nema brots - þeirra mannréttinda að fá að eiga eina og eina hvíldarstund, einhverja dagparta vikunnar.

Maður hefði haldið að íslensk þjóð kynni að meta forystumann sem helgar þjóðinni alla krafta sína, nótt sem nýtan dag og lætur það hafa forgang umfram allt annað. Annað væri algjörlega á skjön við þá háværu kröfu sem hvarvetna ómar um heiðarleika, traust og ósérhlífni.

Segi ekki meir.

------------------------------------------

 

PS: Annars bloggar Gísli Baldvinsson ágætlega um þetta mál og ber saman við birtingarmynd stjórnarandstöðunnar meðal annars.

 


Fangelsismál í ólestri

Hegningarhusid Sannarlega eru fangelsismál á Íslandi "sagan endalausa" eins og bent hefur verið á. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að enn skuli menn vera vistaðir í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Ég minnist þess þegar ég heimsótti þann stað fyrir um tveimur áratugum - þá ungur og ákafur fréttamaður að fjalla um ólestur fangelsismála. Þrengslin innandyra runnu mér til rifja, og ég hefði ekki trúað því þá að þessi húsakynni myndu enn verða í notkun sem fangelsi árið 2009. En þannig er það nú samt - þessi myrkrakompa við Skólavörðustíg er ennþá fangelsi, rekið á undanþágum frá ári til árs. 

Á wikipediu er húsakynnunum þannig lýst:

 Fangaklefarnir í hegningarhúsinu eru litlir og loftræsting ónóg, fangarkvarta gjarnan yfir bágri salernisaðstöðu, en ekkert herbergjanna 16 er svo vel búið að menn geti gengið þar örna sinna svo vel sé, því þar eru hvorki salernihandlaugar.

 Já, byggingarsaga fangelsismála hér á landi er mikil raunasaga og lýsingar á vandræðaganginum við þennan málaflokk eru orðnar ófagrar.  

Margar ríkisstjórnir hafa setið að völdum frá því ég fór að kynna mér fangelsismál. Þær hafa allar vandræðast með þennan málaflokk, og litlu þokað áleiðis. Á annan tug nefnda og starfshópa hafa unnið að lausnum í nær fimmtíu ár, án þess að nýtt fangelsi hafi risið. Áratugum saman hafa áætlanir og teikningar legið á borðinu sem ekkert hefur orðið úr. Eitt árið var meira að segja byggður húsgrunnur sem lá óhreyfður í jörðu árum saman og eyðilagðist loks.

Þetta er sagan af óhreinu börnunum hennar Evu sem enginn vill sjá eða vita um.

Vanræksla - er eina orðið sem mér kemur í hug um þennan málaflokk. Og sú vanræksla hefur varað áratugum saman. Því miður.

Nú leitar Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra leiða til að fjölga plássum (og væntanlega öðrum úrræðum) fyrir dæmda brotamenn, og til greina kemur að leigja húsnæði í því skyni. Ég vona að dómsmálaráðherra verði eitthvað ágengt að þessu sinni.


Kvæðamannafélagið Iðunn 80 ára

freya Kvæðamannafélagið Iðunn er 80 ára í dag, en það var stofnað 15. sept. 1929. Tilgangur félagsins hefur frá upphafi verið að viðhalda og kenna íslenskan kveðskap og vísnagerð, safna kvæðalögum og varðveita þar með þessa merkilegu menningarhefð okkar Íslendinga sem rekja má langt aftur í aldir.

Nafn félagsins vísar til gyðjunnar Iðunnar. Hún gætti eplanna sem æsir átu til að viðhalda æsku sinni. Nafnið hæfir vel félagi sem varðveitir og heldur lífi í aldagamalli hefð.

Ég hef verið félagi í Iðunni í mörg ár, var varaformaður þess um tíma, og á margar góðar minningar frá skemmtilegum félagsfundum. Þá var oft glatt á hjalla, með kveðskap og leiftrandi ljóðmælum sem flugu milli manna. Þarna hafa margir ógleymanlegir hagyrðingar stigið á stokk í gegnum tíðina, snillingar á borð við Sveinbjörn Beinteinsson, Andrés Valberg, bræðurna Hákon og Ragnar Aðalsteinssyni, o.fl. Sömuleiðis hafa sprottið þar upp frábærir listamenn í kveðskap, menn á borð við Steindór Andersen sem hefur lagt einna drýgstan skerf til lifandi kveðskaparlistar af núlifandi Íslendingum. 

Þegar félagið fagnaði 75 ára afmæli sínu árið 2004 voru gefnar út 100 kvæðastemmur af silfurplötum Iðunnar ásamt veglegu riti með nótum að kvæðalögunum öllum og ritgerðum um íslenska kvæðahefð og rímnakveðskap. Silfurplötur Iðunnar nefndist þessi merka útgáfa sem er einstök í sinni röð og mikið þing.

Nú fagnar Iðunn áttræðisafmæli. Ég verð fjarri góðu gamni, og verð því að láta mér nægja að vera með í anda. En héðan úr Skutulsfirðinum sendi ég félögum mínum hjartanlegar hamingjuóskir í tilefni dagsins -  það er braghenda:

Iðunn, til þín æsir sóttu æskuþróttinn.
Eplin rjóð í öskju þinni
yndi bjóða veröldinni.

Enn við þráum ávextina' af eski þínum,
af þeim lifna ljóð á vörum,
lífsins glóð í spurn og svörum.

Áttræðri þér árna viljum allra heilla.
Megi ljóðsins mátar finna
máttugan kraftinn epla þinna.


Laufið titrar, loga strá ...

haustlaufÉg elska haustið - það er minn tími. Þá fyllist ég einhverri þörf fyrir að fylla búrið og frystikistuna, gera sultu og endurskipuleggja híbýlin.

Á haustin færist hitinn úr andrúmsloftinu yfir á litina sem við sjáum í lynginu og á trjánum - síðustu daga hafa fjallshlíðarnar logað í haustlitum umhverfis Ísafjörð.

Þetta er fallegur tími, þó hann sé alltaf blandinn einhverri angurværð. Sumarið liðið, fuglarnir horfnir, og svona. En litadýrðin vegur sannarlega upp á móti.

Einhverntíma gerði ég þessa vísu á fallegu haustkvöldi:

Laufið titrar, loga strá
lyngs á rjóðum armi.
Hneigir sólin höfga brá
að hafsins gyllta barmi.

 


Samkeppnin um fólkið og fiskinn

P1000929 Þó að Ísland, Færeyjar og Grænland, liggi ekki þétt saman landfræðilega séð, eiga þau margt sameiginlegt. Þetta eru „litlar" þjóðir í alþjóðlegum samanburði. Engu að síður eru þær ríkar að auðæfum til lands og sjávar.

Landfræðileg lega þeirra og sambærileg skilyrði í atvinnulífi og menningu gera að verkum að hagsmunir þjóðanna fara á margan hátt saman. Sömuleiðis þær ógnanir og áskoranir sem þær standa frammi fyrir. Má þar nefna auknar pólsiglingar sem skapa bæði tækifæri og hættur í norðurhöfum;  vaxandi alþjóðavæðingu með miklum fólksflutningum milli landa og samkeppni um mannafla og atgervi.

Allar horfast þjóðirnar þrjár í augu við brottflutning ungs fólks sem leitar út fyrir landsteina eftir menntun, en skilar sér mis vel til baka. Allar eru þær miklar fiskveiðiþjóðir. Ekkert er því mikilvægara efnahagslífi þeirra en sjávarútvegurinn ... og mannauðurinn.

narsarsuaq.jpgVestnorræna ráðið - sem er pólitískur samstarfsvettvangur landanna þriggja -  hélt í síðustu viku ársfund sinn í Færeyjum. Fundinn sóttu fulltrúar landsdeildanna  þriggja sem skipaðar eru sex þingmönnum hver. Ég átti þess kost sem formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins að sitja fundinn. Ekki þarf að koma á óvart að sjávarútvegsmál og menntun voru þar í brennidepli.

Eining var um það á ársfundinum að tryggja beri aukið samstarf Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði menntamála. Var meðal annars samþykkt ða hvetja ríkisstjórnirnar til að koma á samstarfi milli menntastofnana um nemendaskipti milli mennta- og fjölbrautaskóla í löndunum þremur.

Fundurinn hvatti menntamálaráðherra landanna til að koma á tilraunaverkefni milli landanna um fjarnám. Einnig var samþykkt tillaga Íslands um að efla samstarf um bóklegt og starfstengt nám, m.a. iðn- og verkmenntir fyrir ófaglært starfsfólk í löndunum.  Lögðum við til sérstakt tilraunaverkefni tiltekinna menntastofnana í þessu skyni í þeim tilgangi að hvetja þá sem ekki hafa stundað framhaldsnám til að auka á þekkingu sína svo þeir verði betur búnir undir hugsanlegar breytingar á atvinnumarkaði. Hafa Menntaskólinn á Ísafirði og Fræðslumiðstöð Vestfjarða lýst sig reiðubúin til að taka þátt í verkefninu af Íslands hálfu.

Þessi áhersla á samstarf í menntamálum er ekki að ófyrirsynju. Aldrei fyrr hafa þjóðirnar þrjár þurft svo mjög á því að halda að standast samanburð við umheiminn - standast samkeppnina um unga fólkið og þar með framtíðarbyggð landanna.  Samkeppnin um unga fólkið veltur ekki hvað síst á möguleikum þess til menntunar og framtíðaratvinnu. Efnahagslegar stoðir undir hvort tveggja er sjávarútvegurinn í þessum löndum - en sjávarútvegsmál voru annað aðalumfjöllunarefni ársfundarins.

Þingfulltrúar ársfundarins beindu sjónum að þörfinni fyrir aukið samstarf milli landanna á sviði sjávarútvegs. Annars vegar varðandi rannsóknir á ástandi fiskistofna og sjávarspendýra á norðlægum slóðum, sem ráðið hefur ályktað um áður. Hins vegar að hagnýtingu fiskistofnanna og fiskveiðistjórnun landanna. Í ályktun fundarins var því beint til sjávarútvegsráðherra Íslands, Færeyja og Grænlands að láta gera nákvæma úttekt á því samstarfi sem löndin eiga með sér um bæði rannsóknir á lifandi auðlindum hafsins og um stjórnun fiskveiða, ekki síst varðandi deilistofna. 

Jafnframt var samþykkt - að frumkvæði okkar Íslendinga - að þemarástefna ráðsins næsta ár skyldi helguð samanburði á mismunandi fiskveiðistjórnunarkerfum Íslands, Grænlands og Færeyja. Umrædd þemaráðstefna er undirbúningur fyrir ársfund Vestnorræna ráðsins 2010 og verður hún haldin á Sauðárkróki í byrjun júní næsta sumar. Þar er ætlunin að kryfja fiskveiðistjórnunarkerfi landanna og meta kosti þeirra og galla. Sú umræða er tímabær á þessum vettvangi, nú þegar við Íslendingar stöndum frammi fyrir endurskipulagningu okkar eigin fiskveiðistjórnunarkerfis.  Grænlendingar hafa sömuleiðis ýmis vandamál að kljást við í sínu kerfi. Þar er  m.a. um að ræða ágreining vegna fiskveiðasamningsins við ESB  - en þannig vill til að ESB er einnig að endurskoða eigin fiskveiðistjórnunarstefnu. Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins um fiskveiðistjórnun gæti því orðið innlegg í þá stefnumótun, ef vel er á málum haldið.

Það var lærdómsríkt að sitja þennan ársfund Vestnorræna ráðsins og upplifa þá vináttu og samkennd sem ríkir milli þjóðanna þriggja. Víst er að þessar þjóðir þurfa að standa saman um þá hagsmuni og gagnvart þeim  hættum sem steðja að fámennum samfélögum á norðlægum slóðum.

Fiskurinn og fólkið eru verðmætustu auðlindir okkar - og Vestnorrænu löndin eiga í samkeppni við umheiminn um hvort tveggja.

 

----------------

PS: Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag.


Reynslan af strandveiðunum

fiskur Nú er lokið tveggja mánaða reynslutímabili strandveiðanna sem samþykktar voru með lagabreytingu á Alþingi fyrr í sumar. Ætlunin var - samkvæmt upphaflegu frumvarpi - að heimila veiðarnar frá 1. júní - 31. ágúst, og meta reynsluna af þeim að því loknu. Málið olli deilum í þinginu, því Sjálfstæðismenn settu sig öndverða gegn frumvarpinu og gerðu hvað þeir gátu til að tefja framgang málsins bæði í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, sem og í umræðum í þinginu. Fyrir vikið varð strandveiðunum ekki komið á fyrr en 1. júlí. Þá voru tveir mánuðir eftir af fiskveiðiárinu og því ljóst að reynslan af veiðunum yrði takmarkaðri en ella.

Lagabreytingin fól það í sér að nú mátti veiða á handfæri 3.955 lestir af þorskígildum utan aflamarkskerfis. Fiskimiðunum við landið var skipt upp í fjögur svæði og ráðherra heimilað að skipta aflaheimildum á einstaka mánuði milli þessara svæða. Skyldi byggt á hlutfallslegri skiptingu byggðakvóta við útdeilingu aflaheimilda, en 2.500 lestum var auk þess skipt jafnt á öll svæðin (625 lestir á hvert svæði).

SmábátarSamkvæmt lögunum var ekki heimilt að fara í fleiri en eina veiðiferð á hverjum degi, fjöldi handfærarúlla var takmarkaður og afli hvers dags skyldi ekki fara yfir 800 kg af kvótabundnum tegundum. Með þessu var leitast við að láta leyfilegt veiðimagn dreifast sem mest á landsvæði og tíma auk þess sem þetta ákvæði átti að hindra að of mikið kapp yrði í veiðunum. Þá var kveðið á um að allur afli sem landað yrði við færaveiðar skyldi vigtaður og skráður hér á landi. 

 Þeir tveir mánuðir sem liðnir eru frá því strandveiðunum var komið á, hafa leitt góða reynslu í ljós. Við lok fiskveiðiársins þann 31. ágúst s.l. höfðu rétt innan við 4000 þorskígildistonn komið að landi. Landanir í sumar hafa verið 7.313 og 554 bátar á sjó. Mest hefur veiðst af þorski (3.397 tonn) en 576 tonn veiddust af ufsa og enn minna af öðrum tegundum.

Eitt af því sem vakti athygli við þessa tilraun sem staðið hefur í sumar, er hversu misjöfn aflabrögðin reyndust milli svæða. Þannig var búið að veiða allt leyfilegt aflamagn á svæði A (norðvestursvæðinu) þegar í byrjun ágúst, á meðan innan við helmingur veiðiheimilda var enn óveiddur á öðrum svæðum. Á norðvestursvæðinu voru langflestir bátar í róðrum, eða 195 samanborið við t.d. 94 báta á svæði B sem nær frá Skagabyggð í Grýtubakkahrepp. Þetta vekur spurningar um sókn á svæðunum í samhengi við aflamarkið og þarf að skoða vel.

Það er þó samdóma álit allra sem til þekkja að strandveiðarnar hafi orðið sjávarplássunum lyftistöng, enda færðist mikið líf í hafnir landsins í sumar. Þess sáust skýr merki þegar á fyrstu dögum eftir að veiðarnar hófust. Bryggjur þar sem vart hafði sést maður - hvað þá fiskur - árum saman iðuðu nú skyndilega af lífi. Aftur heyrðist vélahljóð báta í fjörðum kvölds og morgna, fólk að fylgjast með löndunum og spriklandi fiskur í körum.

Háskólasetur Vestfjarða hefur tekið að sér að skila skýrslu um reynsluna af þessum veiðum og verður fróðlegt að sjá hvað hún mun leiða í ljós.

En svo mikið er víst, að strandveiðarnar færðu líf í hafnir landsins - þær glæddu atvinnu og höfðu í alla staði jákvæð áhrif á mannlíf í sjávarbyggðum. Loksins, eftir langa mæðu, fengu íbúar við sjávarsíðuna að upplifa eitthvað sem líkja má við eðlilegt ástand - einhverskonar frelsi eða opnun á því niðurnjörvaða kvótakerfi þar sem mönnum hefur verið meinaður aðgangur að fiskimiðunum við strendur landsins nema þeir gerðust leiguliðar hjá útgerðum eða keyptu sér kvóta dýru verði.

Tilraunin með strandveiðarnar hefur nú þegar sannað gildi sitt, og því hlýtur endurvakning strandveiða við Ísland að vera ráðstöfun til framtíðar.


Egill yrkir ljóð

Ljóð dagsins á Egill Helgason - það birtist á bloggsíðu hans í dag og er svohljóðandi:

Hvítur flötur 

Að sitja hjá í Icesave málinu er eins og að vera beðinn um að mála mynd og skila auðum striga.

Daginn eftir er svo hafist handa við að túlka myndina út og suður.

Sem er ekkert nema hvítur flötur.

-----------------------

Ég hefði ekki getað orðað þetta betur - og erum við Egill þó tæpast sammála í Icesave málinu.


Stund milli stríða

Nýliðið sumar hefur verið afar viðburðaríkur tími. Tími annríkis. Reynsluríkur tími.

Þingmenn hafa lítið næði fengið til að kasta mæðinni eða eiga samvistir með fjölskyldu eða vinum. Nú þegar það næði loksins gefst eru skólarnir byrjaðir og vetrardagskráin hafin hjá flestum.

Engu að síður er gott að eiga svolitla stund milli stríða.

Nú um helgina koma þeir feðgar til borgarinnar - sonurinn að keppa í fótbolta. Móðirin staðráðin í að vera honum (hæfileg) hvatning á hliðarlínunni. Wink

Svo er meiningin að skella sér vestur eftir helgina, reyna að njóta þess að eiga nokkurra vikna eðlilegt heimilislíf, tína ber ef veður leyfir, æfa hundinn og svona ... prjóna.

Sjáumst þegar ég nenni að byrja að blogga aftur.

Hafið það gott á meðan.


Þreyttir þingmenn takast á um Icesave

Það var kominn hálfgerður svefngalsi í þingheim seint í gærkvöldi þegar Icesave umræðan hafði staðið allan liðlangan daginn. Trúlega mun umræðan halda áfram framyfir helgi, enda augljóst að fólki liggur margt á hjarta.

Í gærkvöld hitnaði vel í kolum um tíma. Ég átti m.a. í snarpri orðræðu við nokkra þingmenn stjórnarandstöðuna eftir mína ræðu seint í gærkvöld. Í máli mínu minnti ég á meinsemdir þær sem herjað hafa  og munu áfram herja á íslenskt samfélag, nema menn læri af reynslunni og hafni þeirri skefjalausu frjálshyggju sem riðið  hefur yfir þjóðina eins og holskefla. Þetta sveið sjálfstæðismönnum og aðrir stjórnarandstæðingar blönduðu sér líka í umræðuna.

Umræðurnar getur fólk séð á þessari slóð hér.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband