Kvótamálin og vegferðin framundan

Nýtt frumvarp um heildarendurskoðun fiskveiðistjórnunarinnar bíður nú framlagningar í þinginu. Eftir þriggja ára samráð með aðilum í sjávarútvegi , launþegahreyfingunni og öðrum þeim sem að greininni koma,  er það skylda rétt kjörins meirihluta Alþingis og ríkisstjórnar að leiða málið nú til lykta á grundvelli fyrirheita sem stjórnarflokkarnir hafa fengið lýðræðislegt umboð til að hrinda í framkvæmd.  Undan hótunum og hræðsluáróðri sem dunið hefur á þjóðinni frá hagsmunasamtökum útvegsmanna geta rétt kjörin stjórnvöld ekki látið. Þau mega heldur ekki missa kjarkinn, nú þegar stundin er runnin upp til þess að gera varanlegar breytingar til bóta, í átt til frekari opnunar á óréttlátu kerfi.

 

Fyrsta skrefið í þá átt að rjúfa eignamyndun útgerðarinnar á aflaheimildum og tryggja þjóðinni sanngjarnan arð af fiskveiðiauðlind sinni var stigið með setningu laga um veiðigjald síðastliðið vor. Veiðileyfagjaldið er reiknað sem ákveðið hlutfall af umframhagnaði útgerðarinnar þegar allur rekstrarkostnaður hefur verið dreginn frá.  Afkoma útgerðarinnar er nú með besta móti, hreinn hagnaður hennar var 60 milljarðar á síðasta ári en heildartekjur 263 milljarðar. Veiðileyfagjaldið mun á þessu fiskveiðiári gefa 13 milljarða króna í ríkissjóð. Það munar um minna þegar sárlega er þörf á að styrkja samfélagslega innviði eftir hrunið. Vegna veiðileyfagjaldsins verður nú unnt að ráðast í viðamiklar samgönguframkvæmdir á borð við Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng, veita atvinnulífinu innspýtingu með framkvæmdum, fjárfestingum, rannsóknum og þróun.

 

En vegferðinni er ekki lokið. Síðara skrefið, breytingin á sjálfri fiskveiðistjórnuninni, hefur ekki verið stigið enn.

 

Með kvótafrumvarpinu sem nú bíður framlagningar er opnað á það lokaða kvótakerfi sem nú er við lýði. Frumvarpið gerir ráð fyrir tímabundnum nýtingarleyfum gegn gjaldi í anda tillagna að nýju auðlindaákvæði stjórnarskrár. Með svokölluðum leigupotti, sem verður opinn  og vaxandi  leigumarkaður með aflaheimildir  og óháður núverandi kvótahöfum, losna kvótalitlar og kvótalausar útgerðir úr fjötrum þess leiguliðakerfi sem verið hefur við lýði. Þær munu eiga þess kost að leigja til sín aflaheimildir á grundvelli frjálsra, opinna tilboða úr leigupottinum sem verður í upphafi 20 þúsund tonn en mun vaxa með aukningu aflaheimilda. Þar með yrði komið til móts við sjálfsagða kröfu um aukið atvinnufrelsi og nýliðun.

Frumvarpið sem nú bíður uppfyllir ekki alla drauma okkar sem vildum sjá breytingar á fiskveiðistjórnuninni til hins betra. Það er málamiðlun og málamiðlanir geta verið erfiðar. Engu að síður er það skref í rétta átt – skref sem ég tel  rétt að stíga, fremur en una við óbreytt ástand.  Hér er það mikið í húfi fyrir byggðarlög landsins og tugþúsundir Íslendinga sem hafa beina og óbeina lífsafkomu af sjávarútvegi að krafan um „allt eða ekkert“ getur varla talist ábyrg afstaða. Hún getur einmitt orðið til þess að ekkert gerist.

 

Og þá yrði nú kátt í LÍÚ-höllinni – en dauft yfir sveitum við sjávarsíðuna.

 

----------------

Þessi grein birtist sem kjallaragrein í DV í dag.


Afleiðingar ofsaveðurs - skýringa er þörf

Veðurofsinn sem gekk yfir Vestfirði nú um hátíðarnar afhjúpaði alvarlega veikleika í raforku, samgöngu- og fjarskiptamálum okkar Vestfirðinga. Af því tilefni hef ég nú þegar óskað eftir sérstakri umræðu í þinginu um raforkumál Vestfirðinga og mun fara þess á leit að yfirmenn samgöngu og fjarskiptamála verði kallaðir til fundar við umhverfis- og samgöngunefnd til þess að skýra fyrir nefndinni hvað gerðist, og hvaða áætlanir séu uppi um að hindra að annað eins endurtaki sig.

 Vestfirðingar geta ekki unað því lengur að vera svo berskjaldaðir sem raun ber vitni þegar veðurguðirnir ræskja raddböndin af þeim krafti sem nú varð, hvorki varðandi raforkumál, fjarskipti né samgöngur.  Það gengur ekki öllu lengur að allar leiðir til og frá höfuðstað Vestfjarða séu lokaðar dögum saman vegna snjóþyngsla og snjóflóðahættu, líkt og gerðist að þessu sinni (og ekki í fyrsta sinn). Súðavíkurhlíðin er snjóflóðakista sem lokast iðulega þegar ofankoma verður meiri en í meðallagi - en þessi vegur er helsta samgönguæðin milli Ísafjarðar og umheimsins yfir vetrarmánuðina.  Að þessu sinni varð vart komið tölu á fjölda þeirra flóða sem féllu á veginn á fáeinum dögum. Þetta sýnir að jarðgöng milli Engidals og Álftafjarðar verða að komast á teikniborðið hið fyrsta, og inn á samgönguáætlun strax í framhaldi af Dýrafjarðargöngum, og þetta þarf að ræða við fyrsta tækifæri á vettvangi þingsins.

 Þá getum við ekki unað því að fjarskipti fari svo úr skorðum sem raun bar vitni, bæði GSM kerfið og Tetra-kerfið sem almannavarnirnar reiða sig á, bæði björgunarsveitir og lögregla.

Þá finnst mér Orkubú Vestfjarða skulda Vestfirðingum skýringar á því hvers vegna fjórar varaaflsstöðvar voru bilaðar þegar á þurfti að halda, þar af tvær stöðvar á Ísafirði. Varaaflsstöðvarnar eru vélar sem þarfnast eftirlits, viðhalds og álagsprófunar. Eitthvað af þessu þrennu hefur farið úrskeiðis, og stjórnendur fyrirtækisins þurfa að skýra betur hvað gerðist. Enn fremur þarf að skýra það fyrir Vestfirðinum, almannavörnum og fleiri aðilum hvað fór úrskeiðis í upplýsingagjöf fyrirtækisins til íbúa á svæðinu.

 Orkubú Vestfjarða er fyrirtæki í almenningseigu þannig að Vestfirðingar eru ekki einungis viðskiptavinir fyrirtækisins heldur einnig eigendur þess. Það hlýtur að vekja furðu að ekki skyldu strax gefnar út tilkynningar í gegnum almannavarnir um það hvað væri í gangi í rafmagnsleysinu. Fólk sat í köldum og dimmum húsum tímunum saman án þess að vita nokkuð. Það er ekki nóg að setja ótímasettar tilkynningar inn á heimasíðu fyrirtækisins, þegar rafmagnsleysi ríkir liggur netsamband að mestu niðri. Tilkynningar í gegnum almannavarnir til útvarpshlustenda og í GSM síma hefðu þurft að berast. Svör orkubússtjóra um að "panik og kaos" hafi skapast vegna veðurhamsins eru ekki fullnægjandi að mínu viti, því þessu veðri var spáð með góðum fyrirvara.

 Þessi uppákoma afhjúpaði að mínu viti svo alvarlega veikleika í kerfinu að það þarfnast nánari skoðunnar, m.a. á vettvangi þingsins.  Ég tel því  óhjákvæmilegt að farið verði vel yfir þessi mál í þinginu strax að loknu jólaleyfi.


Kvótamálið - tækifærið er núna

Fyrr í dag sendum við Lilja Rafney Magnúsdóttir frá okkur yfirlýsingu vegna stöðunnar sem upp er komin í fiskveiðistjórnunarmálinu - en í dag ákváðu forystumenn stjórnarflokkanna að bíða með framlagningu þess. Yfirlýsing okkar Lilju Rafneyjar fer hér á eftir:

Nú þegar nýtt frumvarp um fiskveiðistjórnun,  sem verið hefur eitt stærsta deilumál þjóðarinnar,  bíður framlagningar í þinginu er brýnt að niðurstaða náist sem fullnægi grundvallarsjónarmiðum um þjóðareign auðlindarinnar, jafnræði, nýliðunarmöguleika og bætt  búsetuskilyrði í landinu.  Undan hótunum og hræðsluáróðri sem dunið hefur á þjóðinni frá hagsmunasamtökum útvegsmanna geta rétt kjörin stjórnvöld ekki látið. Þau mega heldur ekki missa kjarkinn, nú þegar stundin er runnin upp til þess að gera varanlegar breytingar til bóta, í átt til frekari opnunar á óréttlátu kerfi.

Með frumvarpinu eru stigin skref til þess að opna það lokaða kvótakerfi sem nú er við lýði með því að taka upp tímabundin nýtingarleyfi í anda tillagna að nýju auðlindaákvæði stjórnarskrár. Með opnum og vaxandi  leigumarkaði með aflaheimildir, sem óháður er  núverandi kvótahöfum, losna kvótalitlar og kvótalausar útgerðir undan því leiguliðakerfi sem verið hefur við lýði og eiga þess kost að leigja til sín aflaheimildir á grundvelli frjálsra, opinna tilboða. Er þar með komið til móts við sjálfsagða kröfu um jafnræði, atvinnufrelsi og aukna nýliðun.
 
Frumvarpið sem nú bíður er vissulega málamiðlun, en það er stórt skref í rétta átt – skref sem við teljum rétt að stíga, fremur en una við óbreytt ástand.

Eftir þriggja ára samráð með aðilum í sjávarútvegi, launþegahreyfingunni og öðrum þeim sem að greininni koma,  er það skylda Alþingis og ríkisstjórnar að leiða málið nú til lykta á grundvelli fyrirheita sem stjórnarflokkarnir hafa fengið lýðræðislegt umboð til að hrinda í framkvæmd.

Því skorum við á þingmenn og forystu beggja stjórnarflokka að sameinast um færar leiðir til lausnar á þessu langvarandi deilumáli og leggja frumvarpið fram hið fyrsta.  Afkoma sjávarútvegs er nú með besta móti, hún hækkaði um 26% milli áranna 2010/2011 og hreinn hagnaður var um 60 milljarðar króna  á síðasta ári. Mikið er í húfi fyrir byggðir landsins og þær tugþúsundir Íslendinga sem hafa beina og óbeina lífsafkomu af sjávarútvegi.

Nú er tækifærið – óvíst er að það gefist síðar.


Ramminn er málamiðlun.

Í svonefndri Rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða fá ekki allir allt sem þeir vilja.
Stundum er sagt um málamiðlanir að þær geri alla álíka óánægða og því sé skynsamlegra að velja milli sjónarmiða. Nokkuð er til í því – en í jafn stóru máli og þessu getur ekki hjá því farið að reynt sé að teygja sig í átt til ólíkra sjónarmiða. Hér hefur það verið gert.

Rammaáætlun á að tryggja að nýting landsvæða með virkjunarkostum byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati með sjálfbærni að leiðarljósi. Henni er ætlað að taka tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði. Slík áætlun skal lögð fram á Alþingi á fjögurra ára fresti hið minnsta.

Virkjunarsinnar eru ekki allskostar ánægðir með þann ramma sem nú liggur fyrir. Þeir telja að meira hefði mátt virkja. Þeir tala um atvinnuuppbyggingu, telja störf og peningaleg verðmæti. Þeir líta á fossandi vatn og sjá þar ónýttan möguleika sem rennur í tilgangsleysi til sjávar.

Verndunarsinninn dáist að fallandi fossi. Hann sér þar líka mikla möguleika, en allt annars konar. Hann upplifir fegurð, finnur kraftinn frá vatnsaflinu og óskar þess innra með sér að fleiri fái að njóta: Börnin og barnabörnin til dæmis. Báðir hafa nokkuð til síns máls.

Vaknandi vitund
En á það að vera sjálfgefið að virkja allt sem virkjanlegt er, bara af því það er hægt? Er ásættanlegt að virkja náttúruauðlindir – spilla þar með umhverfi – ef við þurfum ekki orkuna? Er atvinnuuppbygging réttlætanleg ástæða virkjunarframkvæmda, eins og sumir hafa haldið fram? Væri ekki nær að spyrja sig: Hversu lítið kemst ég af með? Hvað get ég komist hjá að virkja mikið?

Í nýju náttúruauðlindaákvæði í frumvarpi að breyttri stjórnarskrá er í fyrsta skipti fjallað um náttúruna sjálfrar hennar vegna, sem undirstöðu lífs í landinu sem öllum ber að virða og vernda. Þar er í fyrsta skipti sagt berum orðum í texta sem hefur lagagildi að öllum skuli með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni, ómenguðu andrúmslofti og óspilltri náttúru. Í því felst að fjölbreytni lífs og lands sé viðhaldið og náttúruminjar, óbyggð víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar. Þar er kveðið á um að nýtingu náttúrugæða skuli þannig hagað að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur.

Þetta mikilvæga ákvæði er til vitnis um vaknandi vitund og virðingu fyrir umhverfinu, móður jörð. Í því er horft frá öðrum sjónarhóli en þeim sem hingað til hefur verið svo mikils ráðandi í umræðunni um nýtingu náttúrugæða.
Íslensk náttúra er ekki aðeins uppspretta ljóss og varma, hún er líka uppspretta lífsafkomu og fæðuframboðs. Hún er uppspretta upplifunar. Ekki síst er hún uppspretta ódauðlegrar listsköpunar sem við þekkjum af ljóðum þjóðskáldanna og af öndvegisverkum myndlistarinnar.

Skynsamleg nýting

Það er ekki sjálfgefið að virkja allt, bara af því það er hægt. Náttúran á sinn tilverurétt og óbornar kynslóðir eiga sitt tilkall til þess að koma að ákvörðunum um nýtingu og vernd náttúrugæða. Orðið „nýtingarvernd" gæti jafnvel átt hér við, því verndun getur verið viss tegund nýtingar og atvinnusköpunar. Nærtækt er að benda á ferðaþjónustuna, en ég vil líka minna á þá mikilvægu hreinleikaímynd sem íslensk fyrirtæki, ekki síst matvælafyrirtæki, þurfa mjög á að halda.

Sú rammaáætlun sem nú liggur fyrir mætir andstæðum viðhorfum af þeirri hófsemi sem vænta má þegar mikið er í húfi og skoðanir skiptar. Hún gerir ráð fyrir skynsamlegri nýtingu en virðir um leið mikilvægi náttúrugersema. Hér er tekið visst tillit til óskertra svæða – þótt óneitanlega hljóti einhverjum að finnast sem lengra hefði mátt ganga í því efni.

Á hinn bóginn hefur fjölda landsvæða – sem að óbreyttu lægju undir sem virkjunarkostir – verið komið í skjól í þessari áætlun: Jökulsá á Fjöllum, Markarfljóti, Hengilsvæðinu, Geysissvæðinu, Kerlingafjöllum, Hvítá í Árnessýslu og Gjástykki. Öðrum kostum hefur verið skipað í biðflokk þar sem þau bíða frekari rannsókna eða annarra átekta. Við fjölgun kosta í biðflokki er fylgt þeim sjálfsögðu varúðarviðmiðum sem eru meginsjónarmið alls umhverfisréttar og við Íslendingar höfum með alþjóðlegum samningum skuldbundið okkur til þess að fylgja.

Hér hefur faglegum aðferðum verið fylgt, að svo miklu leyti sem hægt er, þegar mannshönd og mannshugur eru annars vegar. Hér hafa ekki allir fengið það sem þeir vildu. En þessi málamiðlun er skynsamleg að teknu tilliti til þess hversu andstæð sjónarmiðin eru í jafn vandmeðförnu máli.


Heildræn meðferð - heilsubót eða kukl?

Þingsályktunartillaga - sem ég er meðflutningsmaður að - um að kannaðar verði forsendur þess að niðurgreiða heildræna meðferð græðara til jafns við aðra heilbrigðisþjónustu, hefur vakið augljósan áhuga í samfélaginu, jafnvel hörð viðbrögð hjá sumum. Eitt dæmi er  þessi vanhugsaða fordæming á heimasíðu Vantrúar þar sem því er haldið fram að umræddir þingmenn - Guðrún Erlingsdóttir, Bjarkey Gunnarsdóttir og undirrituð - séum að leggja það til að ríkið "niðurgreiði skottulækningar" eins og það er orðað svo smekklega.

Verði hin ágæta þingsályktunartillaga okkar þriggja samþykkt gerist einfaldlega þetta:

Skipaður verður starfshópur með fulltrúum frá embætti landlæknis, Sjúkratrygginga Íslands, Bandalagi íslenskra græðara, ríkisskattstjóra og velferðarráðuneyti. Sá hópur metur það í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga um gagnsemi heildrænnar meðferðar græðara hvort efni standi til þess að bjóða fólki upp á niðurgreiðslu slíkrar meðferðar - hvort sem hún er þá liður í  t.d.

  • eftirmeðferð (td eftir krabbameinsmeðferð, áfengismeðferð eða dvöl á geðsjúkrahúsi svo dæmi sé tekið)
  • stoðmeðferð við aðrar læknisfræðilegar/hefðbundnar meðferðir (t.d. stuðningur við kvíðastillandi meðferð, meðferð við þunglyndi eða vegna meðferðar langvinnra, álagstengdra sjúkdóma)
  • eða sjálfstæð meðferð vegna óskilgreindra heilsufarslegra vandamála sem  læknavísindin ráða jafnvel ekki við með hefðbundnum aðferðum.

Heildrænar meðferðir hafa átt vaxandi fylgi að fagna undanfarna áratugi sem liður í almennri heilsuvakningu og auknum skilningi læknavísindanna á því að sjúkdómar eru sjaldnast einangrað fyrirbæri, heldur afleiðing samverkandi þátta í lífi fólks: Lifnaðarhátta, andlegs álags, erfða o.s.frv.

Náttúrulækningafélag Íslands reið á vaðið á síðustu öld með stofnun heilsuhælisins í Hveragerði, þar sem fólk fær einmitt heildræna meðferð við ýmsum kvillum t.d. eftir skurðaðgerðir eða lyfjameðferðir: Slökun, nudd, leirböð, hreyfingu, nálastungur o.fl.

Verði þessi starfshópur skipaður má vænta þess að hann muni líta til þeirra rannsókna og annarra gagna sem fyrir liggja um gagnsemi slíkra meðferðarúrræða, ræða við lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk og leita álits þeirra.

Fyrir nokkrum árum spratt upp mjög heit umræða um ágæti eða gagnsleysi höfuðbeina og spjaldhryggjameðferðar. Fram á sviðið þrömmuðu læknar sem höfðu allt á hornum sér í því sambandi. Þá skrifaði ég þessa grein á bloggsíðu mína sem mér finnst raunar eiga fullt erindi inn í þessa umræðu enn í dag.


Umsnúningur auðlindaákvæðis?

Vaxandi eru áhyggjur mínar af þeirri breytingu sem  nú er orðin á auðlindaákvæði verðandi stjórnarskrár. Ég tel því óhjákvæmilegt að hugað verði nánar að  afleiðingum þeirrar "orðalagsbreytingar" - enda óttast ég að hún geti snúið ákvæðinu upp í andhverfu sína. Það hringja allar viðvörunarbjöllur hjá mér yfir þessu, og lögfræðingar sem ég hef rætt við eru sammála mér um að þetta sé (eða geti a.m.k. verið) efnisbreyting.

Í tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrár - og á atkvæðaseðlinum sem almenningur tók afstöðu til í kosningunni 20. október síðastliðinn - sagði þetta um auðlindir í 34. grein:

Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar." 

 74% þeirra  sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni samþykktu þetta orðalag.

Í því frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi eftir yfirferð sérfræðinganefndarer hins vegar talað um þær auðlindir „sem ekki eru háðar einkaeignarrétti".

Ég óttast að þar með sé verið að vísa því til ákvörðunar dómstóla framtíðarinnar að færa t.d. kvótahöfum eignarrétt yfir fiskveiðiauðlindinni, svo dæmi sé tekið. Það er ekki það sem þjóðin kaus um þann 20. október. Þá tóku kjósendur jákvæða afstöðu til þess að auðlindirnar - þar með talin fiskveiðiauðlindin - séu í ævarandi eigu þjóðarinnar.

Hér þarf að búa þannig um hnúta að engin hætta sé á því að þetta ákvæði sem á að vernda eignarrétt þjóðarinnar yfir auðlindunum snúist upp í andhverfu sína. Því hef ég óskað eftir því að fjallað verði um þetta sérstaklega í umhverfis- og samgöngunefnd, sem og atvinnuveganefnd í tengslum við stjórnarskrárvinnuna. Ég hef líka vakið athygli nefndarmanna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á málinu, og óskað eftir því að þetta verði tekið til sérstakrar umfjöllunar.

Hér má enginn vafi leika á inntaki auðlindaákvæðisins eða ævarandi eign þjóðarinnar yfir auðlindum sínum.


Hvert er þá öryggi aldraðra á hjúkrunarheimilum?

Málefni hjúkrunarheimilisins Eirar vekur margar áleitnar spurningar.

Hér er um að ræða sjálfseignarstofnun sem rekin er á dagpeningum frá ríkinu.  Stofnun sem hefur tekið við háum greiðslum frá skjólstæðingum sínum og ríkinu - en meðhöndlað þá fjármuni eins og þeir væru ráðstöfunarfé stjórnenda, e-s konar risnu fé fyrir vini og vandamenn þeirra sem treyst var fyrir þessum fjármunum. „Örlætisgjörningur" er orðið sem Ríkisendurskoðun notar yfir þann gjörning. Ekki er ég viss um að aðstandendur íbúa Eirar myndu velja það orð. Verður mér þá hugsað til aðstandenda gamla mannsins sem kom með 24 mkr í ferðatösku fyrir fáum árum til þess að greiða fyrir íbúðina sem hann fékk að flytja inn í á Eir. Síðan greiddi hann 63 þús. kr.  mánaðarlega fyrir að fá að búa þar.

Þetta ógeðfellda mál hlýtur að verða rannsakað frekar  og óhugsandi annað en að stjórn heimilisins segi af sér, eða verði látin segja af sér, sjái hún ekki sóma sinn í því að víkja sjálf.

En þetta mál vekur áleitnar spurningar fyrir okkur alþingismenn, sem varða öryggi, eignastöðu og réttindi aldraðs fólks sem dvelur á hjúkrunar- og dvalarheimilum landsins.

Í þinginu í dag beindi ég þeim tilmælum til formanns velferðarnefndar Alþingis, Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, að taka málefni hjúkrunarheimilanna upp með heildstæðum hætti í velferðarnefnd þingsins. Það þarf að endurskoða og fara vel yfir  það fyrirkomulag sem nú viðgengst varðandi framlag aldraðra til búsetu- og dvalarréttinda á þessum heimilum. Fólk greiðir háar fjárhæðir í upphafi,  og þarf auk þess að  sæta upptöku lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun. Þess eru dæmi að fólk missi nánast öll fjárforráð við það að fara inn á slík heimili. Þetta er gert í nafni „öryggis" og „umönnunar" sem reynist svo ekki betra en dæmið um Eir sannar.

Það er kominn tími til að endurskoða mál þessi í heild sinni.


Byggðaröskun er ekki náttúrulögmál

Hólmavík.kassabílarallý.strandiris_Jon_Jonsson Það er gott að búa úti á landi, í námunda við hreina náttúru, í göngufæri við vinnustað og skjóli umhyggjusams nærsamfélags. En þessi lífsgæði kosta sitt.

Húshitun á köldum svæðum er margfalt dýrari en í Reykjavík.  Það er mannleg ákvörðun. Vöruverð er umtalsvert hærra vegna flutningskostnaðar - því er hægt að breyta.

Hrafnseyrarheiði.16.april.2012.vegagerdinSamöngur, raforkuöryggi, gott internetsamband:  Allt eru þetta forsendur þess að atvinnulíf og byggð fái þrifist og dafnað - og allt eru þetta mannlegar forsendur sem hægt er að breyta, ef vilji og heildarsýn eru fyrir hendi.

Höfuðborgin aflar 42% ríkistekna, en hún eyðir 75% þess sem kemur í ríkiskassann.  Það er ekki náttúrlögmál.

Þróunin á landsbyggðinni er afleiðing ákvarðana, t.d. þeirrar ákvörðunar að afhenda fiskveiðiauðlindina útvöldum hópi og færa þeim óðalsrétt að þjóðarauðlind án eðlilegs endurgjald til samfélagsins. Af þeirri ákvörðun hefur hlotist mikil atvinnu- og byggðaröskun. Hin margrómaða hagræðing útgerðarinnar varð á kostnað samfélagsins - byggðarlögin borguðu. Daginn sem skipið er selt í hagræðingarskyni eða útgerðarmaðurinn selur kvótann og fer með auðævi sín úr byggðarlaginu, situr eftir byggð í sárum: Atvinnulaust fólk með verðlitlar fasteignir sem kemst hvergi, en unga fólkið lætur sig hverfa til náms, og kemur ekki aftur. Hvernig byggðinni farnast eftir slíka atburði, er háð öðrum skilyrðum, m.a. samöngum, fjarskiptum og raforkuöryggi - en ekki síður innra stoðkerfi og opinberri þjónustu.

Árneshr.Gunnsteinn_Gislason_og_Olafur_Thorarensen.Gunnar Njálsson Það þýðir ekki að tala um byggðaröskun sem „eðlilega þróun", því þessi þróun er mannanna verk. Hún stafar af ákvörðunum og skilningsleysi misviturra stjórnmálamanna sem í góðærum fyrri tíða misstu sjónar af almannahagsmunum og skeyttu ekki í reynd um yfirlýst stefnumið laga um jafnan búseturétt.

Til þess að jafna stöðu byggðanna þarf einfaldega að taka réttar ákvarðanir, í samgöngumálum, í atvinnu- og auðlindamálum og við uppbyggingu stofnana og þjónustu. Búsetuval á að vera réttur fólks í nútímasamfélagi.

 Stefnan er til á blaði í öllum þeim byggða-, samgöngu- og sóknaráætlunum sem til eru, en þeirri  stefnu þarf að koma í verk.

Byggðahnignunin er ekki náttúrulögmál - hún er mannanna verk.


Allan afla á markað

Gunnar Örn Örlygsson, stjórnarmaður í SFÚ flutti einnig tölu. Í hans máli kom fram að fiskvinnslur SFÚ greiða þriðjungi hærra verð fyrir hráefni til vinnslu en fiskvinnslur LÍÚ. 

Það er furðulegt hversu lítill hljómgrunnur hefur verið meðal ráðamanna í gegnum tíðina við þau sjónarmið að aðskilja veiðar og vinnslu og setja "allan fisk á markað" (eða a.m.k. aukinn hluta). Hægt er að sýna fram á það með gildum rökum  að aðgerðir í þá átt myndu stuðla að eðlilegri verðmyndun, heilbrigðari samkeppnisskilyrðum, aukinni atvinnu og ekki síst -- sem skýrsla KPMG leiðir í ljós -- auknum tekjum hins opinbera.

Það er auðvitað undarlegt að sjá hvernig þeir sem mest hafa viðrað sig upp við markaðsöflin gegnum tíðina hafa staðið fastast gegn þessu í reynd. Í ljós kemur að hinir meintu markaðspostular þessa lands eru ekki að berjast fyrir heilbrigðum markaðsskilyrðum heldur fákeppni og sérhagsmunum stórfyrirtækja og samsteypa. Merkin sýna verkin. 

Í því sambandi var fróðlegt að hlusta á Jóhannes I Kolbeinsson framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar lýsa okkar bágborna, íslenska samkeppnisumhverfi - slöku eftirliti, veikburða Samkeppnisstofnun, slöppu lagaumhverfi. Ofan á allt bætist að hans sögn að helstu hagsmunasamtök atvinnulífsins SAA hafa lagst á sveif með stórfyrirtækjum að slaka á framkvæmd samkeppnislaga.  

Já, það hefur lengi skort á heildarsýn í þessum efnum í okkar litla samfélagi þar sem sterk öfl takast á um mikla hagsmuni, og svífast einskis. Umhverfið í útgerð og fiskvinnslu er ekki hvað síst dæmi um það.

Ég hef lengi talað fyrir aðskilnaði veiða og vinnslu sem og því að allur afli (eða a.m.k. vaxandi hluti) fari á markað, og lagt fram tillögur þar að lútandi.

Í ljósi þess hvernig aðrir þingmenn tjáðu sig í pallborði fundarins, er þess vonandi að vænta að skilningur á þessu sjónarmiði sé eitthvað að glæðast, og að við munum sjá þess merki í tillöguflutningi á Alþingi innan tíðar.


Þjóðkirkjan okkar

Í dag ræddum við í þinginu um stöðu Þjóðkirkjunnar.

Í nýafstaðinni þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur að nýrri stjórnarskrá var sérstaklega spurt um afstöðu almennings til þjóðkirkjunnar. Niðurstaðan var afgerandi: Íslendingar vilja þjóðkirkju.

 Þjóðkirkjan hefur veigamiklu hlutverki að gegna í samfélagin okkar. Hún hefur lögbundnar skyldur, menningarlegar og félagslegar. Kirkjan hefur verið það skjól sem tugþúsundir Íslendinga hafa leitað til í sorgum og gleði, jafnt í einkalífi sem og í þjóðlífinu sjálfu, t.d. þegar áföll hafa dunið yfir þjóðina.

 Síðustu ár hafa verið kirkjunni erfið í margvíslegum skilningi – ekki síst fjárhagslega. Líkt og aðrar stofnanir þjóðfélagsins hefur þjóðkirkjan tekist á við mikinn niðurskurð, sem – þegar grannt er skoðað – virðist umtalsvert meiri en öðrum stofnunum hefur verið ætlað.

 Megintekjustofnar Þjóðkirkjunnar eru tveir. Annars vegar greiðsla fyrir eignir sem Þjóðkirkjan afsalaði til ríkissjóðs 1997 og hins vegar skil á félagsgjaldi sem ríkið tók að sér að innheimta og var árið 1987 umreiknað í tiltekið hlutfall tekjuskatts.

 Í ljós hefur komið að frá og með fjárlögum 2009 hafa báðir ofangreindir tekjustofnar þjóðkirkjunnar verið skertir umtalsvert.

 Að teknu tilliti til verðþróunar, nemur skerðing sóknargjalda um 20% . Við þetta bætist hagræðingarkrafan sem gerð er til allra stofnana samfélagsins, þar á meðal kirkjunnar því hún hefur mátt sæta umtalsverðri skerðingu á lögbundnum og samningsbundnum framlögum. Þá hefur einnig orðið tilfinnanleg fækkun gjaldenda í sumum sóknum. Að sögn þeirra sem til þekkja er þetta nú þegar farið að hafa veruleg áhrif á þjónustu kirkjunnar um allt land,  þar á meðal grunnþjónustuna - sjálft helgihaldið, sálgæsluna, æskulýðsstarfið og líknarmálin. Það er mikið áhyggjuefni.  

 Fjárhagsstaða margra kirkna úti á landi er þannig að hún rétt nægir til að greiða hita, rafmagn og önnur lögbundin útgjöld, fjármunir til safnaðarstarfs eru ekki til staðar. Guðsþjónustum er því fækkað og fjármunir til venjulegs viðhalds eigna er ekki fyrir hendi.  Þeir varasjóðir sem til voru eru víða þurrausnir og komið að enn frekari niðurskurði.

 Í  stærri sóknum í þéttbýli er barna- og æskulýðsstarf í hættu vegna þess að sóknir geta ekki greitt fyrir það, en það er það starf sem víðast hvar var reynt að hlífa. Sömu sögu er að segja um eldriborgarastarf, fullorðinsfræðslu, kærleiksþjónustu og líknarmál.

 Við svo búið má ekki standa. Á meðan við höfum þjóðkirkju í landinu, verðum við að búa svo að henni að hún geti sinn lögbundnu hlutverki sínu og skyldum. 

Andleg umönnun er allt eins mikilvægt  og önnur umönnun – ekki síst á erfiðum tímum líkum þeim sem við höfum upplifað undanfarin ár. Maðurinn lifir ekki á brauðinu einu saman.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband